Í samtölum við verktaka um kaup á íbúðum

Sigður Ingi ræddi við mbl.is um húsnæðismál Grindvíkinga.
Sigður Ingi ræddi við mbl.is um húsnæðismál Grindvíkinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að leitað sé allra leiða hvað varðar húsnæðismál Grindvíkinga. Meðal þess sem er í skoðun að sögn Sigurðar er að reisa einhvers konar viðlagasjóðshús, eins og gert var eftir gosið í Vestmannaeyjum fyrir 50 árum, og þá gæti ríkið keypt húseignir af verktökum og leigt þær út til Grindvíkinga.

Sigurður Ingi stýrði fundi ríkisstjórnarinnar í morgun í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og voru húsnæðismál Grindvíkinga í brennidepli.

Hvaða aðgerðir er ríkisstjórnin að horfa til lengri tíma varðandi húsnæðismál Grindvíkinga?

„Fyrsti fasinn er langt kominn hvað varðar að tryggja fólki tímabundið húsnæði en svo erum við að horfa til lengri tíma og þess vegna settum við saman hóp á föstudaginn, svokallaðan spretthóp, sem er að horfa á einhvers konar viðlagasjóðshús til þess að koma inn á markað sem er þröngur fyrir,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar.

Skoða hvort ríkið kaupi íbúðir og leigi til Grindvíkinga

Hann segir að vitað sé um að það er fullt af húsnæði í eigu verktaka sem er tilbúið og samtöl hafi átt sér stað við þá og fasteignasala.

„Við erum komin með til þess að gera fjölda af íbúðum sem möguleiki væri fyrir Grindvíkinga að komast í með stuttum fyrirvara. Við erum að skoða hvort ríkið kaupi þessar íbúðir og leigi þær síðan út til þess að skapa þetta svigrúm fyrir Grindvíkinga ,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir í einhverjum tilfellum mætti skoða að aðstoða íbúana í gegnum hlutdeildar hugmyndafræðina og að þeir gætu keypt íbúðirnar.

„Við erum opin fyrir eins mörgum möguleikum og hægt er því við megum ekki gleyma því mikilvægasta er að íbúar Grindavíkur verða svolítið að ákveða það hvar þeir ætli að vera. Þar verðum við að vera tilbúin að hjálpa þeim með húsnæði en ekki segja; hér er húsnæði gjörið þið svo vel.“

150 íbúðir væru um 10 milljarðar

Hvað eru þetta margar íbúðir sem ríkið myndi þá taka til sín?

„Það er ekki alveg komið á hreint. Það eru 1.200 íbúðareiningar í Grindavík. 20 prósent af þeim, eða 240 einingar, eru á leigumarkaði en hinar eru eignir fólksins. Við þurfum að greina þennan hóp með sitt hvorum hætti vegna þess að þeir þurfa mismunandi lausnir. Leiguhópurinn þarf áframhaldi leiguhúsnæði á meðan húseigendurnir þurfa hugsanlega tímabundna leigu en myndu líka hugsanlega vilja eignast húsnæði. Svo megum við ekki gleyma enn einum möguleikanum en hann er sá að fólki geti flutt til síns heima.“

Um kostnað ríkisins að kaupa íbúðir af verktökum segir Sigurður að ef verið sé að tala um 150 íbúðir þá gæti kostnaðurinn orðið um 10 milljarðar króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert