Land rís áfram við Svartsengi

Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist …
Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi að sögn Veðurstofu Íslands. Tekið er fram að hraðinn á risinu í Svartsengi hafi haldist nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn. 

Þetta kemur fram í nýju stöðuyfirliti Veðurstofunnar sem hefur verið birt. 

Þar kemur fram, að frá miðnætti í dag hafi 165 jarðskjálftar, allir undir 2 að stærð, mælst við kvikuganginn, en það sé nokkuð færri en síðustu daga en þá hafa mælst um 1.500-1.800 skjálftar á sólarhring.

COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd frá 18. - 19. nóvember. Merki um landris …
COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd frá 18. - 19. nóvember. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu. Kort/Veðurstofa Íslands

Erfitt að meta hvort dragi úr skjálftavirkni að svo stöddu

„Gera má ráð fyrir að hvassviðri sem nú gengur yfir landið hefur áhrif á næmni kerfisins til að finna minnstu skjálftana, því er erfitt að meta hvort dragi úr skjálftavirkni að stöddu.

Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hefur hraðinn á risinu í Svartsengi haldist nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að Veðurstofan muni, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands,halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast. 

Veður hefur áhrif á næmni mæla á svæðinu

Í tilkynningunni segir jafnframt, að Veðurstofan hafi aukið á vöktun í og við Grindavík, sem og á svæðinu umhverfis Hagafell á meðan íbúar nálgast eigur sínar og verðmæti og verktakar vinna við varnargarða.

„Skilvirkni þessarar vöktunar veltur á góðri næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS-mælinga en næmnin er mjög háð veðuraðstæðum. Í ljósi þess að veðurspá næstu tveggja daga bendir til úrkomu og talsverðs vinds má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og  rauntíma GPS-vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Brim hefur áhrif á lágu tíðnina í óróamælingunum þar sem öldur koma fram sem órói. Þoka og dimm él hafa síðan áhrif á sjónræna staðfestingu á gosi með myndavélum.“

mbl.is