Ræða eftirgjöf og niðurfellingu skulda

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segist telja að öll fjármálafyrirtæki …
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segist telja að öll fjármálafyrirtæki muni bjóða frekari úrræði til handa Grindvíkingum gerist þess þörf. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn

„Við fórum yfir það að það væri ljóst að líklega þyrftu fjármálafyrirtæki að bjóða frekari úrræði sem fela í sér eftirgjöf og niðurfellingu skulda.“

Þetta segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í samtali við mbl.is að loknum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Arion banki tilbúinn að bregðast við ákallinu

Nefndin fundaði með forsvarsmönnum stóru viðskiptabankanna þriggja um ástandið á Reykjanesskaga og afstöðu bankanna til þeirra erfiðu mála sem blasa við fólki í Grindavík.

Benedikt segir Arion banka vera tilbúinn að bregðast við ákallinu um að fjármálastofnanir þurfi að taka aukna ábyrgð.

Hann segir að á fundinum hafi verið farið yfir það samtal sem fjármálafyrirtækin eru í við stjórnvöld.

„Auðvitað eru þessar náttúruhamfarir enn þá í gangi og óvissan er enn til staðar. Það er ljóst að fasteignir á þessu svæði, bæði einstaklinga og fyrirtækja, eru tryggðar af náttúrhamfaratryggingarsjóði en það er óljóst núna hvaða fasteignir eru tryggðar og hvenær þær eru tryggðar því atburðurinn er enn í gangi.“

Öll fjármálafyrirtæki komi með frekari úrræði ef þarf

Er Arion banki klár með eitthvað útspil?

„Já já, við erum þátttakendur í þessu með stjórnvöldum og öðrum fjármálafyrirtækjum í gegnum Samtök fjármálafyrirtækja.“

Lilja D. Alfreðsdóttir bankamálaráðherra var hvöss í ræðustól Alþingis og sagði meðal annars að það kæmi til greina að grípa til aðgerða gagnvart bönkunum ef þeir myndu ekki stíga upp og sýna aukna ábyrgð.

Benedikt segir að ráðherra hafi sent bönkunum tóninn en segir Arion banka sannarlega vinna í því að koma með fleiri úrræði en undirstrikar jafnframt að margt sé óljóst enn þá.

„Við erum auðvitað ekki tryggingafélagið en við erum fjármálafyrirtæki sannarlega. Ég held að öll fjármálafyrirtæki muni koma með frekari úrræði gerist þess þörf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka