Óvíst hvað fór á milli Margrétar og Semu

Landsréttur hefur sýknað Margréti Friðriksdóttur (hægri) af ákæru um að …
Landsréttur hefur sýknað Margréti Friðriksdóttur (hægri) af ákæru um að hafa hótað Semu Erlu Serdaroglu (vinstri) lífláti fyrir utan veitingastaðinn Cafe Benzin sumarið 2018. Samsett mynd

Vafi leikur á hvað raunverulega fór á milli Margrétar Friðriksdóttur Semu Erlu Serdaroglu við Cafe Benzin sumarið 2018. Sneri því Landsréttur við dómi héraðsdóms og sýknaði þá fyrrnefndu af ákæru um líflátshótanir í garð þeirrar síðarnefndu.

Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem var birtur fyrir skömmu. 

Sakfelld í héraðsdómi í febrúar

Í febrúar á þessu ári dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Margréti í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hóta Semu Erlu lífláti fyrir utan Cafe Benzin við Grensásveg sumarið 2018.

Á Margrét þá að hafa sagt við Semu á ensku „I'm gonna kill you, you fucking bitch,“ sem útlagst gæti á íslensku sem „Ég ætla að drepa þig fokking tíkin þín.“

Í kjölfarið áfrýjaði Margrét dómi héraðsdóms til Landsréttar sem snéri í dag dómi héraðsdóms við og sýknaði Margréti. 

Misræmi í framburði vitna

Í dómi Landsréttar er gerð grein fyrir ákvörðun dómstólsins, en þar segir að við sönnunarmatið hafi Landsréttur leitað meðal annars til þess að mikið hafi borið á milli lýsinga vitna á samskiptum kvennanna tveggja og á því sem að vitni töldu að farið hafi þeirra á milli kvöldið sem umrætt atvik átti sér stað. 

Þar segir jafnframt að vitnisburði hafi til dæmis stangast á um það hvort samskiptin hafi farið fram á íslensku eða ensku, hvaða orð hafi verið látin falla og hvort líflátshótanir hafi verið endurteknar. 

Auk þessa taldi Landsréttur að vitni sem sögðu frá ætluðum líflátshótunum Margrétar hafi tengst Semu með þeim hætti að þau tengsl hefðu mögulega áhrif á trúverðugleika þeirra. 

Ákæruvaldinu mistókst að sanna líflátshótun

Vegna ofangreindra þátta og fleiri atriða sem greint er frá í dómnum taldi Landsréttur slíkan vafa leika á því sem fram fór á milli þeirra Margrétar og Semu að útilokað væri að fullyrða að um líflátshótanir hafi verið að ræða.

Þar af leiðandi taldi Landsréttur að ákæruvaldinu hefði ekki tekist svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að færa sönnur á því að Margrét hafi hótað Semu Erlu lífláti.

Var dómi héraðsdóms því snúið við í Landsrétti og hefur Margrét Friðriksdóttir nú verið sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert