Segja fólki að halda sig frá: „Það eru að koma jól“

Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum er um langa vegalengd að …
Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum er um langa vegalengd að ræða sem sé hvorki auðveld né hættulaus. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að fólki beri að varast það að ganga í átt að gossvæðinu við Sundhnúkagíga. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér í kvöld. 

18-20 kílómetra gönguleið

Í tilkynningu lögreglunnar segir að fólk skuli hugsa sig vel og vandlega um áður en það leggi af stað í átt að gossvæðinu.

Þar segir að það séu um 9-10 kílómetrar sem skilji að Reykjanesbrautina og gosstöðvarnar sem þýði að um 18-20 kílómetra gönguferð sé að ræða.

Því megi gera ráð fyrir því að það taki vanan göngumann um fimm klukkustundir að ganga fram og til baka að gosinu sem sé alls ekki á allra færi. 

Vilja að björgunarsveitarfólk geti verið heima um jólin

Fram kemur í tilkynningunni að þó fyrstu 500 metrar göngunnar í átt að eldgosinu séu á sæmilegum stíg taki síðan við gróft og úfið hraun sem sé afar erfitt yfirferðar. Þá vekur lögregla einnig athygli á krefjandi veðurskilyrðum, bleytu og kulda, sem geri gönguna enn fremur krefjandi. 

„Við höfum því miður þurft að kalla út þyrlu í kvöld til að sækja göngumann sem varð úrvinda, kaldur og skelkaður á miðri leið að gosinu,“ segir í tilkynningu lögreglu þar sem lögð er áhersla á að enn ríki mikil óvissa á svæðinu hvað varði ýmsa þætti svo sem gasmengun og almennt öryggi.

„Endilega íhugið þetta áður en þið farið af stað, það eru að koma jól og við viljum að viðbragðsaðilar eins og björgunarsveitarfólk geti verið heima hjá sér yfir hátíðarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert