„Eigum öll að vera tilbúin að takast á við óblíð náttúruöfl“

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir ótímabært að stíga frekari skref í uppbyggingu varnargarða að svo stöddu. Hún biðlar til allra landsmanna að muna að náttúran sé öflug á Íslandi yfir háveturinn.

Hún fagnar því að uppbygging varnargarðana við orkuveituna við Svartsengi sé langt komin. 

„Það eru nokkrar vikur síðan að byrjað var að skoða hugsanlega varnargarða til að varna byggðinni í Grindavík og það er bara til skoðunar og fylgir áhættumati almannavarna og Veðurstofunnar.“

Hugur allra hjá Grindvíkingum í aðdraganda jóla

Hún segir hug allra hjá Grindvíkingum í aðdraganda jóla, sem margir hverjir hafi eflaust verið farnir að bera þá von í brjósti að þeir gætu haldið jól í sínum heimabæ. Það verði því miður ekki raunin.

„Þetta eru gríðarlega stórir viðburðir, hvort sem það er þessi mikli sigdalur sem myndaðist 10. nóvember eða gosið sem hófst í gær. Það er álíka stórt og Kröflueldar að því er talið er,“ segir Guðrún. 

Hún biðlar til allra landsmanna að yfirfara heimili sín og hafa varan á yfir háveturinn enda sé móðir náttúra öflug hér á landi. 

„Við eigum öll að vera tilbúin að takast á við óblíð náttúruöfl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert