Kvikan sem kemur upp í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina er talin vera af sama stofni og kvikan sem kom upp í meginhluta Geldingadalagossins árið 2021, Meradalagosinu árið 2022 og eldgosinu við Litla-Hrút í sumar.
Kvikan er þó líklega þróaðri en sú kvikan sem einkennt hefur síðustu gos í Fagradalsfjalli. Gefur þetta til kynna að nýju bráðirnar hafi dvalið lengur í jarðskorpunni á leið sinni til yfirborðs.
Þetta sýna niðurstöður mælinga jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands á hraunsýni sem safnað var aðfaranótt 19. desember, skömmu eftir að eldgosið hófst.
Hraunsýnið sem var safnað er blöðrótt og glerkennt með plagíóklas- og ólivíndílum (>1 mm á lengd) og plagíóklas-, ólivín- og krómspínil-smákristöllum.
Er kvikan talin ólík þeirri kviku sem komið hefur upp í sögulegum eldgosum í Svartsengiskerfinu, sem myndað hafa Illahraun, Eldvarpahraun og Arnarseturshraun, sem og forsögulegum hraunum eins og hinu 2.400 ára gamla Sundhnúkagígahrauni.
Bendir það til að nýja kvikan eigi sér annan uppruna, að minnsta kosti að hluta.