Þurfa að kaupa olíuketil til að tryggja raforku

Bæjarráð Hornafjarðar bókaði á síðasta fundi að krísuástand væri orðið …
Bæjarráð Hornafjarðar bókaði á síðasta fundi að krísuástand væri orðið í raforkumálum á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skinney Þinganes hefur þurft að fjárfesta í olíukatli til þess að hafa varaafl þegar ekki er til næg raforka.

Bæjarráð Hornafjarðar skorar á stjórnvöld að fara í aðgerðir til þess að tryggja næga raforku til notenda og koma í veg fyrir að keyra þurfi orkunýtingu á innfluttri og mengandi orku. Öðruvísi nái þjóðin aldrei loftlagsmarkmiðum sínum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hornarfjarðarbæ.

Enga orku að hafa

Bæjarráð Hornafjarðar bókaði á síðasta fundi að krísuástand væri orðið í raforkumálum á Íslandi.

„Síðastliðin 9 ár hefur Skinney-Þinganes hf. notað rafmagn við framleiðslu fiskimjöls og lýsi, en nú er enga orku að hafa þar sem ekki er nægt rafmagn til í kerfinu. Félagið hefur þess vegna fest kaup á olíukatli sem er ætlaður sem varaafl fyrir verksmiðjuna og knúinn er af dísilolíu,“ segir meðal annars í bókuninni.

Kemur fram að bæjarráð lýsi yfir furðu sinni og vonbrigðum með að „við hér á landi séum komin í þá grafalvarlegu stöðu að fyrirtæki sem hafa fjárfest mikið og lagt metnað sinn í að reka sína framleiðslu á innlendum sjálfbærum orkugjöfum, sé nú sett í þá stöðu að þurfa að fjárfesta í tækjum sem framleiða orku og keyra á dísilolíu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert