Alldjúp lægð blæs norðanstreng suður yfir landið

Gular viðvaranir eru í gildi á aðfangadag.
Gular viðvaranir eru í gildi á aðfangadag. mbl.is/Árni Sæberg

Gul viðvörun er í gildi til klukkan 22 í kvöld en norðanátt er ríkjandi, 15-25 m/s með skafrenningi og snjókomu eða éljum, en mun hægari um landið austanvert. Frost verður á bilinu 0 til 8 stig. 

„Nú er alldjúp lægð við Færeyjar og hæð yfir Grænlandi, milli þeirra er sterkur norðanstrengur sem blæs suður yfir Ísland með snjókomu og skafrenningi, einkum norðvestantil. Reyndar er veðrinu misskipt því vindur er mun hægari á austanverðu landinu. Síðdegis breiðist vindstrengurinn austur yfir land og jafnframt dregur aðeins úr honum. Þá verður einnig að mestu þurrt sunnan heiða,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Lægðin fjarlægist smám saman og á jóladag er útlit fyrir norðaustan kalda eða strekkings vind með éljum norðan- og austanlands. Frost verður á bilinu 0 til 8 stig.

Seinnipart jóladags lægir enn frekar og á annan í jólum er útlit fyrir úrkomulítið og kalt veður, en það eru líkur á snjókomu á Vesturlandi um kvöldið.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert