Ráðleggur Grindvíkingum að dvelja ekki í bænum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ráðleggur bæjarbúum að dvelja ekki í Grindavík í ljósi landriss við Svartsengi og þess að auknar líkur eru taldar á eldgosi. Lögreglan mun þó ekki banna fólki að vera í bænum.

Þetta segir Úlfar í samtali við mbl.is.

„Grindvíkingar hafa heimild til að gista í bænum eins og verið hefur núna um jólin en það er ráðlegging lögreglustjóra að þeir dvelji ekki í bænum, þó hann hindri ekki dvöl,“ segir Úlfar.

Hann segir ráðlegginguna koma í ljósi landriss við Svartsengi sem og það að auknar líkur eru taldar á eldgosi samkvæmt Veðurstofunni.

Gist í 30 húsum í nótt

Hann segir Grindvíkinga vera á eigin ábyrgð í Grindavík og að reglum um aðgengi þeirra að bænum verði ekki breytt að svo stöddu.

Í nótt var dvalið í um 30 húsum í Grindavík að sögn Úlfars. Aðspurður kveðst Úlfar ekki vita hversu margir muni dvelja í bænum yfir áramótin.

„Ég hef í sjálfu sér ekki tilfinningu fyrir því. Ég myndi frekar telja að það dragi úr áhuga á því að dvelja í bænum undir þessum kringumstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert