Mestur ójöfnuður í Austurbæ og Vesturbæ

Ójöfnuður á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki aukist að neinu marki síðustu tíu ár. Minnkandi ójöfnuður kemur á óvart, segir borgarstjóri.

Þetta kom fram á opnu málþingi um félagslegt landslag sem haldið var í Ráðhúsinu í dag. Yfirskrift málþingsins var Ójöfnuður á Stór-Reykjavíkursvæðinu - hver er staðan?

Á málþinginu kynnti Kolbeinn H. Stefánsson, dósent í félagsráðgjafardeild HÍ, niðurstöður rannsóknar sinnar um félagslegt landslag sem unnin var í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Mikilvægt að ójöfnuður sé settur á dagskrá

Í ávarpi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sagði hann rannsóknina vera tímamótarannsókn. Stærsta niðurstaðan væri sú að ójöfnuður hefði ekki aukist síðustu tíu ár. Hann hefði farið hratt vaxandi fram að hruni, svo minnkaði hann gríðarlega eftir 2010 og hefur verið frekar jafn síðan.

Dagur taldi mikilvægt að ójöfnuður væri settur á dagskrá. Hann lagði áherslu á að jafnvel þó ójöfnuður hefði ekki aukist síðasta áratug væri ekki þar með sagt að ekki væri margt sem bregðast þurfi við.

„Við eigum ekki að veigra okkur við þessari umræðu, heldur fagna henni,“ bætti Dagur við að lokum.

Niðurstöður rannsóknarinnar

Kolbeinn H. Stefánsson, dósent í félagsráðgjafardeild HÍ, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar. Gögnin sem rannsóknin er byggð á eru skráargögn Hagstofu Íslands um alla skráða íbúa Reykjavíkur og á nálægum svæðum á árunum 2000-2020.

Þessi gögn innihalda meðal annars upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir, menntun, uppruna, tekjuliði og fjölskyldugerð. Gögnunum er svo beitt til þess að kortleggja ójöfnuð. 

Viðkvæmir hópar í borg, úthverfum og á áhrifasvæðum

Búseta barna með lögheimili hjá einstæðu foreldri er að breytast. Mestmegnis er hlutfall þessa hóps að minnka í Reykjavík og í fjölda nærliggjandi hverfa. Einstæðir foreldrar virðast því leita út fyrir borgina.

Búseta 18-66 ára sem fengu skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fer hækkandi á svæðum utan Reykjavíkur og lækkar í Reykjavík.

Aftur á móti ef litið er á breytingu á hlutfalli innflytjenda í hverfum og sveitarfélögum milli 2000 og 2020 er mesta aukning á innflytjendum í hverfum í Reykjavík og í vissum nærliggjandi sveitarfélögum, sérstaklega á Suðurnesjum. Áberandi mesta aukning innflytjenda er í Fellahverfi í Breiðholti.

Kolbeinn benti á að hægt væri að lesa ákveðna tilfærslu lágtekjuhópa úr þessum tölum. Einstæðir foreldrar og þeir sem fá skattskyldar greiðslur frá TR virðast vera að flytja í miklu mæli af höfuðborgarsvæðinu og innflytjendur eru að fylla í skörðin.

Mest aukning innflytjenda er í Fellahverfi í Breiðholti.
Mest aukning innflytjenda er í Fellahverfi í Breiðholti. mbl.is/Sigurður Bogi

Austurbær og Vesturbær ójöfnustu hverfin

Þau hverfi sem eru með lægsta miðgildi ráðstöfunartekna eru Austurbæjarhverfi og Vesturbærinn. Þessi hverfi eru einnig þau ójöfnustu en þar er víðasta tekjudreifingin samkvæmt rannsókninni. 

Kolbeinn segir þetta megi útskýra meðal annars af því að þessi hverfi eru oft fyrsta stopp innflytjenda. 

Í samanburði við önnur sveitarfélög er tekjudreifingin í Reykjavík næst hæst á eftir Seltjarnarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert