Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að verið sé að byggja upp farsóttardeild á Landspítalanum og að engar skyndilausnir séu til staðar til að bæta ástandið.
Eins og mbl.is hefur greint frá þá er ástandið þungt á Landspítalanum. Búið er að taka upp grímuskyldu, innlagnir eru umfram viðmið og allt að fjórðungur starfsfólks spítalans hefur verið frá á sama tíma vegna veikinda.
„Það er mjög krefjandi staða. Það er auðvitað þessi árstími þar sem koma ýmsar veirusýkingar, öndunarfærasýkingar – mjög svæsnar. Svo hefur verið erfið tíð, mikið um hálkuslys,“ segir Willum í samtali við mbl.is í kjölfar ríkisstjórnarfundar.
Hann segir að Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafi verið mjög hjálpleg við að aðstoða við leit að hjúkrunarrýmum. Hann segir þó að ekki hafi tekist að bæta við hjúkrunarrýmum, sem ekki eru á framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma, eins og fyrir ári síðan.
„Það hefur svolítið teppt flæðið á spítalanum, og á sama tíma er búið að gera ýmislegt inn á spítalanum. Bæði varðandi göngudeild bráðalegulækninga og fjarskiptaþjónustu,“ segir hann og bætir við:
„Þannig nýtingin er í hámarki en við erum að vinna að því alla daga með heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum að finna rými til þess að styðja við flæðið.“
Spurður hvort hægt sé að grípa til aðgerða til að létta álagið sem fyrst segir hann ekki hægt að grípa til neinna skyndilausna. Í sögulegu samhengi sé meðal annars hægt að líta til þess að uppbygging hjúkrunarrýma hefði mátt ganga hraðar.
Hann segir bráðamóttökuna vera of litla á mestu álagstímum en bendir á að verið sé að vinna að dreifingu álags eins og til dæmis með nýrri móttöku á Kragasjúkrahúsinu.
„Það er mjög margt sem við þurfum að gera meir og betur en kannski ríður mest á núna að finna rými fyrir sjúklinga sem eru búnir að fá rými á spítalanum og fara í aðgerð, og þá þurfa þau að komast í önnur úrræði.“
Willum segir ekki koma til greina að loka sjúkrahúsinu vegna veirusmita og bendir á að nú sé komin grímuskylda á spítalann og heimsóknartímar verið takmarkaðir.
„Við þekkjum þetta frá því í Covid. Svo erum við auðvitað að byggja upp farsóttardeild sérstaka á spítalanum, sem við sáum í Covid-faraldrinum að þurfti að gera. Þannig það er ýmislegt sem stendur til bóta og það er verið að vinna góða vinnu inn á spítalanum,“ segir Willum.