Myndir: Svona verður listaverkið við nýjan Landspítala

Þórdís Erla hjá vinningstillögunni.
Þórdís Erla hjá vinningstillögunni. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Erla Zoëga bar sigur úr býtum í samkeppni meðal listamanna um nýtt listaverk til útfærslu á Sóleyjartorgi við nýjan Landspítala.

Vinningstillaga Þórdísar Erlu nefnist Upphaf.

Tækniteikning af vinningstillögunni.
Tækniteikning af vinningstillögunni.

Samhljóma niðurstaða

„Það er samhljóma niðurstaða dómnefndar að velja Upphaf sem vinningstillögu í samkeppni um listaverk við nýbyggingu meðferðarkjarna Landspítala. Tillagan er skemmtileg og ber með sér næmi fyrir rýminu og starfsemi spítalans,” segir m.a. í umsögn dómnefndar, að því er kemur fram í tilkynningu frá nýjum Landspítala.

„Hringlaga form afmarkar annars vegar tjörn og hins vegar setsvæði til hliðar við aðalinngang byggingarinnar. Litað gler tengir innra og ytra rými og varpar hlýrri birtu um svæðið þannig að frá verkinu stafar jafnt hlýju og ljósi.“

Tvær aðrar tillögur hlutu viðurkenningu, eða annars vegar Hjartaþræðing eftir Harald Jónsson og Önnu Maríu Bogadóttur og hins vegar Blíðleikur eftir Ólöfu Nordal.

Tækniteikning af vinningstillögunni.
Tækniteikning af vinningstillögunni. Ljósmynd/Aðsend

51 umsókn barst

Alls barst 51 umsókn um þátttöku og valdi forvalsnefnd sex listamenn/hópa úr innsendum umsóknum til þátttöku í lokuðum hluta samkeppninnar. Þeir listamenn sem valdir voru til þátttöku voru eftirtaldir: Þórdís Erla Zoëga, Haraldur Jónsson og Anna Margrét Bogadóttir, Katrín Sigurðardóttir, Ólöf Nordal, Rósa Gísladóttir og Sigurður Guðjónsson.

Listamönnunum var falið að skila inn einni eða tveimur tillögum/útfærslum hverjum. Alls bárust dómnefnd tíu gildar tillögur.

Ljósmynd/Aðsend

Samkeppnin var haldin samkvæmt myndlistarlögum þar sem kemur fram að 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar skuli varið til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Sýning um helgina

Sýning verður á innsendum tillögum í sal Sambands íslenskra myndlistarmanna, Hafnarstræti 16, 6.-7. janúar frá kl. 13.00-17.00. Einnig er hægt að kynna sér tillögurnar á heimasíðum www.nlhs.is, www.lsh.is og www.sim.is.

Þórdís Erla fagnar sigrinum.
Þórdís Erla fagnar sigrinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert