Vélhjólasamtökin Sober Riders MC afhentu Þúfunni, áfangaheimili fyrir konur, rúmlega hálfrar milljónar króna styrk í dag. Styrkurinn verður nýttur til kaupa á rúmum og fleiri innanstokksmunum sem skemmdust vegna myglu.
Upphæðin safnaðist í andskötusúpu sem félagið stóð fyrir á Þorláksmessu. Viðburðurinn er árlegur en félagarnir í Sober Riders MC gáfu fólki á Laugavegi súpu og buðu því um leið að styrkja gott málefni. Þetta er í 14. sinn sem félagið stendur fyrir söfnuninni, en í ár var ákveðið að styrkja áfangaheimil Þúfunnar.
Erla Björg Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Þúfunnar og Lára Zulima Ómarsdóttir, gjaldkeri og talskona Þúfunnar, tóku við styrknum fyrir hönd félagsins.
„Styrkur Sober Riders er ómetanlegur og stjórn Þúfunnar er innilega þakklát fyrir stuðninginn. Fyrir liggur að félagið þarf að fara í mikil fjárútlát á árinu og styrkurinn á því eftir að koma að góðum notum. Þá þökkum við þann hlýhug sem Sober Riders sýnir konunum á Þúfunni. Við munum sjálfsagt leita til þeirra með frekari stuðning í framtíðinni til dæmis við kaup á húsmunum. Við færum meðlimum Sober Riders MC okkar innilegustu og kærustu þakkir,“ er haft eftir Láru Zulimu Ómarsdóttur í tilkynningu, en hún tók á móti styrknum.
/frimg/1/46/38/1463840.jpg)