Tveir létust í umferðarslysinu sem varð á þjóðvegi 1 skammt vestan við afleggjarann að Skaftafelli þegar tvær bifreiðar skullu saman.
Slysið varð laust fyrir klukkan tíu í morgun og voru farþegar og ökumenn samtals átta.
Tveir voru úrskurðaðir látnir á vettvangi og voru þeir báðir erlendir ferðamenn.
Sex voru fluttir til aðhlynningar á Landspítalann í Fossvogi með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar. Lentu þyrlurnar upp úr klukkan 13 í dag.
Fjölmennt lið viðbragðsaðila hefur komið að aðgerðum á vettvangi. Í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi segir að vinna á vettvangi sé langt komin en rannsókn málsins er á frumstigi.
Þjóðvegi 1 hefur verið lokað á meðan vinna stendur yfir, en ekið er um hjáleið við Skaftafell.
Fréttin hefur verið uppfærð.

