Hryllingssögur í frímínútum

Erlingur Óttar Thoroddsen er handritshöfundur og leikstjóri hrollvekjunnar The Piper …
Erlingur Óttar Thoroddsen er handritshöfundur og leikstjóri hrollvekjunnar The Piper sem kemur í kvikmyndahús í næstu viku. mbl.is/Ásdís

Hrollvekjan The Piper verður frumsýnd á næstunni og þótt myndin sé bandarísk er Íslendingur sem á allan heiðurinn af henni. Leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen skrifaði handritið og leikstýrði en hann er einnig handritshöfundur og leikstjóri Kulda sem gekk mjög vel nú í haust. Erlingur er klárlega að láta til sín taka í kvikmyndaheiminum, en áhuginn hefur blundað í honum allt frá barnæsku.

Spann upp skelfilegar sögur

„Ég veit ekki hvernig það gerðist, en alveg frá því ég var sex, sjö ára hef ég verið fyrir hrollvekjurnar. Ég var oft í frímínútum að segja hinum krökkunum mjög skelfilegar sögur sem ég spann upp á staðnum,“ segir hann og segist gjarnan hafa sagt krökkunum frá söguþræði hryllingsmynda sem hann sá á myndbandsleigunum; án þess þó að hafa séð þær sjálfur, enda var hann alltof ungur.

„Ég sá ljósmyndirnar á spólunum, að framan og aftan, og bjó mér til í huganum söguþráðinn,“ segir hann og brosir.

„Ég var alltaf að skrifa sögur sem ég skrifaði í stílabækur og oft voru þær framhald af kvikmyndum eða sjónvarpsseríum sem ég hafði séð,“ segir Erlingur og segist gjarnan hafa lesið tímarit sem kom út á þeim tíma og hét Bíómyndir mánaðarins.

Snemma beygist krókurinn; Erlingur hefur haft brennandi áhuga á kvikmyndum …
Snemma beygist krókurinn; Erlingur hefur haft brennandi áhuga á kvikmyndum frá unga aldri.

„Amma á mynd af mér níu ára haldandi á tímaritinu og fyrir ofan myndina stendur: Haustið ’93. Erlingur Óttar hefur mikinn áhuga á kvikmyndum. E.t.v. verðandi leikstjóri. Þannig að ég hafði þá strax einhverjar hugmyndir um starfið. Ég var kominn þangað mjög snemma.“

Tómatsósa og hafragrautur

Faðir Erlings keypti á heimilið VHS-upptökuvél einmitt þegar Erlingur var um tíu ára gamall og hann hóf þar með fyrstu tilraunir sínar í kvikmyndagerð.

„Ég fór þá að gera stuttmyndir með vinum mínum á Álftanesi og það voru alltaf einhverjar hryllingsmyndir. Það var notað mikið af tómatsósu og grímum,“ segir hann.

„Tómatsósan hvarf gjarnan úr ísskápnum heima,“ segir hann og hlær.

Í Garðaskóla hélt sköpunin áfram af fullum krafti en Erlingur og besti vinur hans Baldvin Kári Sveinbjörnsson voru iðnir að búa til kvikmyndir fyrir skólafélagana.

„Við unnum að stuttmyndum saman og fengum afnot af klippigræjum. Við gerðum eina stóra og metnaðarfulla stuttmynd þegar ég var fimmtán ára, RIP/OFF, en það fór vika í tökur, við leigðum myndavél og handrit var skrifað. Við sýndum hana í Garðaskóla og auglýstum hana með stiklu í hádeginu og vorum svo með sýningu um kvöldið og það var mikill spenningur. Við rukkuðum tvöhundruðkall inn og græddum fjörutíuþúsundkall, en við fylltum húsið; tvö hundruð manns mættu. Þarna sá ég að það var hægt að fá borgað fyrir að búa til myndir, en ekki síður var gaman að fá svona stóran áhorfendahóp,“ segir hann og segir að í myndinni hafi hann verið að gera grín að unglingahryllingsmyndum.

„Á þessum tíma voru Scream-myndirnar að koma út, sem voru í uppáhaldi hjá mér. Þetta var Álftanesútgáfa af Scream,“ segir hann og brosir.

„Fókusinn var meira á grínið en myndin var svolítið gróf. Í einu atriðinu var morðinginn með sleggju og lemur manneskju í hausinn, en við vorum búin að búa til haus úr pappamassa sem fylltur var af hafragraut sem slettist þá út um allt,“ segir Erlingur og hlær.

Flutti heim í covid

Eftir kvikmyndanám í New York bjó Erlingur í borginni lengi vel en flutti svo til Los Angeles þar sem hann bjó í tvö ár frá 2018. Hann var þá farinn að geta lifað á listinni og skrifaði meðal annars handrit að einum þætti í hryllingsþáttaseríunni Into the Dark.

„Svo kom covid og ég flutti heim. Ég hélt að þetta yrði bara í þrjá mánuði en svo hélt þetta áfram og á einhverjum tímapunkti fann ég að mér leið eiginlega betur hér heima,“ segir hann og segir mjög marga sem hann þekkti í Los Angeles hafi flutt í burtu í covid og ekki allir snúið aftur eftir að faraldrinum lauk.

„Ég ákvað því að hafa hér bækistöðvar og það hefur hentað vel. Ég hef í raun ekkert þurft að vera í Ameríku, en það hefur aldrei verið meira að gera hjá mér en einmitt í covid, en ég var byrjaður að skrifa The Piper nokkru fyrr,“ segir hann og nefnir að um sumarið 2020 var samið við fyrirtæki erlendis að kaupa handritið.

Erlingur er með marga bolta á lofti í einu og …
Erlingur er með marga bolta á lofti í einu og verkefnin bíða í röðum.

„Á sama tíma var ég að vinna í amerískri endurgerð á Rökkri sem er enn í vinnslu,“ segir hann og segist þá hafa unnið handritið ásamt framleiðanda myndarinnar; óskarverðlaunahafanum Dustin Lance Black.

„Það er ekki enn búið að taka hana upp, en ég varð svo mjög upptekinn í The Piper og svo í Kulda beint á eftir,“ segir Erlingur.

Börnin hurfu sporlaust

Tími er kominn til að tala um nýjastu mynd Erlings, The Piper, sem kemur í kvikmyndahús hér á landi í næstu viku, 19. janúar.

„Hugmyndin kviknaði 2017, en mig hafði alltaf langað til að skrifa mynd sem gerist í sinfóníuhljómsveitarumhverfinu, en eitt sinn vann ég sem sviðsmaður í hálft ár hjá Sinfóníunni. Ég hef líka alltaf haft áhuga á klassískri tónlist og vildi gera eitthvað „spooky“ sem gerist í sinfóníuhljómsveit. Rökkur var svo sýnd í München 2017 og ég man ekki af hverju en ég fór þá að lesa aftur söguna um Rottufangarann í Hamel sem er klassískt þýskt ævintýri. Ég sá að það var eitthvað mjög hryllilegt við þetta ævintýri og fór að kanna það nánar og sá þá að það var byggt á atburðum sem áttu sér stað í raun og veru einhvern tímann um tólf hundruð og fjörutíu, en þá hurfu öll börnin úr bænum sporlaust. Enginn veit af hverju, en ævintýrið var búið til í kringum þennan atburð,“ segir Erlingur og segist strax hafa hugsað að þarna gæti leynst fín hryllingsmynd.

„Þá fór ég að hugsa að ef laglína flautuleikara gæti leitt börn í burtu, hvað gæti þá heil sinfóníuhljómsveit gert? Það var kveikjan að myndinni.“

Og hverfa einhver börn í myndinni?

„Ég get ekkert sagt um það,“ segir hann kíminn.

Hljómaði eins og ævintýri

Kvikmyndin verður svo sýnd í Bandaríkjunum í mars og í kjölfarið fer hún til fleiri landa. Leikarar myndarinnar eru flestir breskir og írskir, enda var erfitt að fá bandaríska leikara í miðjum faraldri sem myndu ef til vill verða innlyksa í Evrópu. Charlotte Hope og Julian Sands leika aðalhlutverkin en þau leika flautuleikara og hljómsveitarstjóra í þessu hryllingsævintýri.

„Það var æðislegt að vinna með þeim enda eru þau bæði reynd. Julian er með fjörutíu ára reynslu á bakinu og hafði leikið með öllum mínum uppáhaldsleikstjórum. Þegar við sátum að borða saman eftir tökur var eins og skrúfað væri frá krana og hann sagði allar sögurnar frá fyrri myndum. Hann var mjög skemmtilegur og fyndinn og kúltíveraður; sannkallaður heimsborgari. Við náðum rosalega vel saman. Hann gerði ekki þessa mynd af því að hann fékk svo vel greitt fyrir það, heldur leist honum vel á handritið og hafði trú á mér. Honum fannst áhugavert að gera hrollvekju í þessum klassíska tónlistarheimi; það kveikti eitthvað í honum,“ segir Erlingur og segist hafa haft augastað á honum í aðalhlutverkið fyrir löngu.

„Ég hef verið aðdáandi hans alveg frá því hann lék í Arachnophobia þegar ég var krakki. Hann var alltaf ofarlega á blaði hjá mér, en hann var það stórt nafn og fjárhagsáætlunin ekki mikil, þannig að við prófuðum fyrst aðra. En svo ákváðum við að athuga hvort hann hefði áhuga,“ segir hann og segir Sands hafa samþykkt strax.

„Hann sagðist vera á þeim stað í lífinu þar sem hann gerði bara það sem hann langaði að gera; hann þráði ævintýri og það hljómaði eins og ævintýri að koma til Búlgaríu og gera þessa mynd með mér.“

Lést í fjallgönguslysi

Sá sorglegi atburður gerðist fyrir nákvæmlega ári að Julian Sands lést í fjallgönguslysi í nágrenni Los Angeles.

„Þetta var mjög sorglegt og sjokkerandi. Hann var mjög vanur fjallgöngumaður og ég man að það fyrsta sem hann gerði þegar hann kom úr flugvélinni í Búlgaríu var að ganga upp á tindinn sem var fyrir ofan stúdíóið. Hann var mikill ævintýramaður og hafði gengið á marga tinda. Hann sagði mér frá mörgum hættulegum ferðum þar sem hann var næstum búinn að týna lífinu og ég held að hann hafi alveg gert sér grein fyrir hættunni,“ segir Erlingur.

Aðalleikari myndarinnar The Piper, Julian Sands, lést í fjallgönguslysi fyrir …
Aðalleikari myndarinnar The Piper, Julian Sands, lést í fjallgönguslysi fyrir ári síðan. Með honum leikur Charlotte Hope.

„Það veit enginn hvað gerðist því hann fannst ekki fyrr en löngu síðar,“ segir hann.

„Það var mjög skrítið að frétta þetta og fyrstu dagana hélt maður í vonina að hann væri einhvers staðar á lífi,“ segir hann og segist hafa fyllst vonleysi eftir því sem leið á.

„Ég var nýbúinn að tala við hann og eftir nýárskveðjur ræddum við um myndina sem átti að koma út síðar á árinu og næstu hittinga,“ segir hann og segir sérstakt nú þegar myndin er komin út að aðalleikarinn sé látinn.

„Ég sagði einmitt á hátíðarsýningunni að ég vissi að hann væri þar með okkur, því það var alveg hundrað prósent að hann hefði komið til Íslands á frumsýninguna.“

Ítarlegt viðtal er við Erling í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert