Telur vinsældir Veganúar ekki fara minnkandi

Krónan í Mosfellsbæ.
Krónan í Mosfellsbæ. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Veganúar er hafinn og formaður grænkera á Íslandi segist sjá mikinn áhuga á þátttöku nú í ár. Grænkerafæði er orðið algengara en áður og gæti það útskýrt hvers vegna minna hefur farið fyrir tilboðum og auglýsingum tengdum átakinu að hennar sögn. 

Veganúar er viðburður, eða áskorun, sem haldinn er í janúarmánuði ár hvert og hefur það að markmiði að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti grænkerafæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.

Samtök grænkera á Íslandi hafa staðið fyrir þessari  áskorun síðan 2016 og er þetta því í níunda sinn sem Veganúar er haldinn á Íslandi. 

Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi.
Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, segir frábæra þátttöku í ár. „Bæði hefur verið vel mætt á þá viðburði sem við höfum haldið í tengslum við Veganúar og við sjáum góð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Miðað við það þá erum við að sjá svipaða þátttöku og síðustu ár,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Öðruvísi þátttaka frá fyrirtækjum en áður

Aðeins minna hefur farið fyrir Veganúar í ár en áður að mati margra. Metnaðarleysi hjá fyrirtækjum og veitingastöðum í Veganúar kynningum og tilboðum hefur verið til umræðu. Valgerður telur þó stærri fyrirtæki standa sig vel í að vekja athygli á málstaðnum. Til að mynda eru Nettó, Krónan og Ikea styrktaraðilar Veganúar segir hún.

mbl.is rædd við Daða Guðjónsson, forstöðumann markaðs- og umhverfismála hjá Krónunni. Hann segir verslunina lengi hafa passað upp á að bjóða upp á grænkeravörur í hverjum vöruflokki síðustu ár til að mæta þörfum grænkera.   

„Vöruúrvalið er því orðið breiðara en við höldum áfram að bæta í svo lengi sem við finnum fyrir eftirspurn. Við erum styrktaraðili Veganúar í ár eins og síðustu ár og erum alltaf til í samtalið á nýjungum í flokki grænkerafæðis,” segir Daði.

Krónan.
Krónan. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir aukningu á milli ára í ákveðnum flokkum grænkeravara. Til dæmis er um 40% aukning í sölu vegan frystivöru nú í ár miðað við sama tíma í fyrra. Einnig er tæplega 20% meiri sala á jurtamjólkurvörum í búðum Krónunnar.

Veganismi orðinn algengari

Valgerður telur metnaðarleysi fyrirtækja að hluta mega útskýrast af því að verslanir og veitingastaðir eru nú þegar með gott úrval af vegan vörum.

Vegan borgari á Lamb Street Food.
Vegan borgari á Lamb Street Food. mbl.is/Lamb Street Food

„Veganismi er orðinn mun útbreiddari, nánast hver einasti veitingastaður sem þú ferð á er með grænkera máltíðir í boði. Það er kannski helsta breytingin finnst mér. Í byrjun var þetta allt svo nýtt og ferskt og allir vildu taka þátt. Nú eru fyrirtæki eru orðin vön því að grænkerar koma allan ársins hring, þau eru búin að bæta vöruúrvalið og eru að þjónusta þennan hóp,“ segir Valgerður.

Alltaf að aukast í hópi grænkera

Þá segir Valgerður að sífellt sé að bætast í hóp grænkera. Hún segir veganisma halda áfram að vaxa meðal ungs fólks. Í þessum hópi er algengt að vera vegan, fólki finnist þetta sjálfsagt.

„Þetta er hópurinn sem elst upp við gott úrval af grænkerafæði og þau vita hver umhverfisáhrifin eru af kjötframleiðsluiðnaðinum. Þetta er líka hópurinn sem er jafnvel með meiri þekkingu á því hvaðan eggin og mjólkin kemur. Þau taka því þessa ákvörðun bæði fyrir heilsuna og umhverfið,“ segir Valgerður. 

Eldra fólkið er kannski aðeins hægara til segir Valgerður en aftur á móti er þessi hópur að borða meira af grænkeramat en áður þótt þau séu ekki endilega vegan. 

Að lokum vill Valgerður hvetja fólk til að skrá sig á síðu Veganúar ef það er að taka þátt eða hefur áhuga á að kynna sér komandi viðburði í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert