Vopnafjarðarhreppur býður öllum börnum til 16 ára aldurs og örorku- og ellilífeyrisþegum í sund óháð búsetu.
Undanfarin ár hafa eldri borgarar og öryrkjar ásamt börnum upp að 16 ára aldri með skráð lögheimili í Vopnafjarðarhreppi ekki greitt fyrir aðgang að sundlaug sveitarfélagsins.
Um áramót tók gildi ný gjaldskrá sundlauga og samhliða því gerði sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps breytingu á gjaldskrá sundlaugarinnar í sveitarfélaginu.
Við ákvörðunina var litið til úrskurðar Innviðaráðuneytisins sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum á liðnu ári að óheimilt væri samkvæmt lögum að útfæra gjaldskrár sundstaða þannig að í þeim fælist mismunun á grundvelli lögheimilisskráningar.
