„Ég veit ekki hvernig mér líður, ég er hálftilfinningalaus. Þetta er bæði ógnvekjandi og mjög óraunverulegt og ég er dofinn yfir þessu,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið, en hann býr í Grindavík. Heimili hans er tveimur götum vestan við þann stað þar sem hraun rennur inn í bæinn.
Vilhjálmur segist telja að byggð verði áfram í Grindavík, þrátt fyrir eldsumbrotin, en segir að augljóslega verði bið á því.
„Hættuástandið hefur aukist til muna og hætta er á að ný gossprunga opnist innar í bænum. Síðan hafa nýjar sprungur verið að myndast sem auka hættuna og lengja þann tíma sem líða mun áður en fólk getur flust til baka. Þetta mun tefja það um marga mánuði eða jafnvel ár,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að nú verði stjórnvöld að stíga inn í og hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft.
„Nú er að koma annar eins hópur inn á fasteignamarkaðinn og gerðist síðast, fólk sem dvalið hefur inni á ættingjum, í sumarhúsum og í bráðabirgðahúsnæði. Nú þarf þetta fólk að finna sér húsnæði til lengri tíma,“ segir Vilhjálmur og stjórnvöld þurfi að aðstoða við það.
Hann segir að margar leiðir séu færar til þess. Til dæmis mætti borga fólki húsnæði sitt út og gefa því forkaupsrétt á því aftur þegar bærinn verður byggilegur á ný. Einnig mætti veita ívilnanir, t.d. að skattleggja ekki séreignarsparnað þegar hann væri tekinn út, afnema stimpilgjöld sem og að veita íbúum aðra fjárhagsaðstoð. Hann bendir á að ýmis kostnaður hafi aukist verulega, t.d. vegna lengri fjarlægða og dýrari samgangna. Þá hafi fólk orðið fyrir tekjufalli vegna ástandsins.
„Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott.“