Fimm látnir í umferðinni á ellefu dögum

„Við höfum á undanförnum áratugum aldrei séð það svartara,“ segir …
„Við höfum á undanförnum áratugum aldrei séð það svartara,“ segir Þórhildur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm létust í umferðinni á ellefu daga tímabili á fyrstu sextán dögum ársins. Aldrei hafa fleiri látist í bílslysum á fyrstu dögum ársins, en skrá Samgöngustofu yfir banaslys nær aftur til ársins 1973.

Einn lést í umferðarslysi á Vesturlandsvegi á þriðjudag. Tveir létust í slysi á þjóðvegi 1 skammt vestan við Skaftafell 12. janúar og tvennt í slysi á Grindavíkurvegi 5. janúar. Öll slysin hafa því orðið utan þéttbýlis.

„Við höfum á undanförnum áratugum aldrei séð það svartara,“ segir Þórhildur Elínardóttir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. Fara þarf aftur til ársins 1977 til að sjá viðlíka ástand og nú. Það ár létust fjórir í einu slysi 3. janúar og sá fimmti lést 18. janúar.

Banaslysum almennt fækkað

Lögregluembættin í hverju umdæmi fara með rannsókn á slysunum og liggja tildrög þeirra ekki fyrir. Færð á vegum hefur verið misjöfn en á síðustu dögum hefur mikil hálka verið og svokölluð svört hálka, sem illa er greinanleg á vegum.

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað umtalsvert á síðustu áratugum og skýrir margt þá jákvæðu fækkun að sögn bæði Þórhildar og Guðbrands Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Frá aldamótum hafa alls 386 látist í 338 umferðarslysum en flestir létust árið 2000 þegar 32 létust í 23 slysum. Síðustu fimm ár hafa 8-9 látist í umferðarslysum á hverju ári og eru slysin orðin mun færri en árin þar á undan.

Fjármögnuð umferðaröryggisáætlun var í fyrsta skipti hluti af fjögurra ára samgönguáætlun. „Það hefur haft jákvæð áhrif á banaslysin,“ segir Þórhildur. Áður en fjármagnaðar umferðaröryggisáætlanir voru gerðar hafi 23-34 látist í umferðinni á hverju ári en sú tala hafi helmingast árin á eftir.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert