Allar líkur á að kvikan hafi runnið um gjá

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir allar líkur á því að kvikan sem kom upp úr syðri sprungunni í eldgosinu 14. janúar hafi fyrst runnið um gjá sem liggur í átt að Grindavík.

Síðan hafi hún mætt mótstöðu og komist upp á yfirborðið.

Ármann er gestur í Dagmálum í dag.

Kom það þér á óvart þegar syðri sprungan opnaðist?

„Já, ég var mjög hissa á því. Og þegar við fórum að rýna í þetta, bara þegar það var að gerast, þá byrjaði það syðst og vann sig norður úr. Það gaf strax til kynna að það væri eitthvað sérstakt á ferðinni þar. Svo voru strókarnir öðruvísi,“ segir Ármann. 

Kom upp á mörkum tveggja sigdala

Syðri sprungan kom upp á mörkum tveggja sigdala sem myndast hafa í Grindavík. Ármann segir rannsóknir síðustu viku gefa til kynna að uppruni hraunsins sé úr nyrðri sprungunni sem opnaðist fyrst. 

„Hraunið rennur bara í þessu gímaldi þar til það kemur að einhverju sem stoppar það rétt fyrir ofan bæinn og þá kemur það upp. Þeim mun meira sem kemur inn, þá færir það sig norður,“ segir Ármann.

Náttúrulega leiðin fyrir sprunguna hefði verið að lengjast meira til suður. 

Það kom Ármanni Höskuldssyni á óvart þegar syðri sprungan opnaðist …
Það kom Ármanni Höskuldssyni á óvart þegar syðri sprungan opnaðist við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gjáin ber ólíklega hraun

Hann segist eiga eftir að staðfesta þetta með lokaniðurstöðum úr rannsóknum en að þessar niðurstöður gefi til kynna að gjáin sem liggur í gegnum Grindavík beri ólíklega hraun.

 „En hraun getur að sjálfsögðu farið eftir þessum gjám og komið upp. Góðu fréttirnar við það eru að gosin yrðu alltaf minni sem næðu að teygja sig inn í bæinn. Við myndum því ekki fá svona kröftugt gos eins og var norðan við,“ segir Ármann. 

Yrði aldrei stórhraun

Spurður hvort hann telji að önnur svona sprunga geti opnast við bæinn segist hann telja að ef aftur gysi á sprungunni norðan við bæinn, þá gæti hraun runnið í gjám og komið upp í Grindavík.

„En það yrði þá aldrei stórhraun, þá erum við bara að tala um einhverja litla bleðla. En auðvitað, ef það er komið inn í bæinn, getur það gert skaða. Allt sem verður fyrir því verður bara ónýtt,“ segir Ármann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert