Geta ekki gert ráð fyrir heimför í bráð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin hefur það til skoðunar að kaupa upp allt húsnæði í Grindavík. Ekki er þó talið tímabært að taka slíka ákvörðun að svo stöddu.

Kom þetta meðal annars fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær en þar gafst fjölmiðlum kostur á að ræða við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, efnahags- og fjármálaráðherra. Áður hafði forsætisráðherra átt fund með formönnum stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi.

Fram kom í máli Katrínar að launastyrkur og húsnæðisstyrkur yrðu áfram í boði fyrir Grindvíkinga. Til stendur að hækka fjárhæðina og ráðast í enn frekari uppkaup á íbúðum fyrir Grindvíkinga til að taka á skammtímavanda í gegnum leigufélagið Bríeti. Þegar hefur verið tilkynnt um kaup á 150 íbúðum til handa Grindvíkingum og verður nú 50 íbúðum bætt við.

„Við þurfum að bjóða Grindvíkingum upp á lausnir því við getum ekki gert ráð fyrir því að Grindvíkingar komist heim á næstu misserum og árum,“ sagði Katrín.

Stór viðfangsefni væru fram undan. Annars vegar að eyða óvissu Grindvíkinga og hins vegar að taka afstöðu til þess hvort byggðarlagið yrði byggilegt til framtíðar. Hún segir að meðal annars þurfi að leita lögfræðilegs álits um afleiðingar mögulegra uppkaupa á húsnæði í bæjarfélaginu. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert