Staðsetningin „bókstaflega úti á túni“

Sigurborg hvetur sveitastjórnina til að endurskoða staðsetningu verslunarmiðstöðvarinnar.
Sigurborg hvetur sveitastjórnina til að endurskoða staðsetningu verslunarmiðstöðvarinnar. Samsett mynd/Hafþór Hreiðarsson/Aðsend

Íbúi á Húsavík hvetur bæjaryfirvöld eindregið til þess að rýna betur aðrar staðsetningar fyrir verslunarmiðstöð innan marka bæjarins. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að gerð verði sömu mistök og önnur sveitarfélög hafa gert með því að færa þjónustu út í jaðar byggðarinnar.

Þetta segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, landslagsarkitekt og verkefnisstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Þrátt fyrir það segir hún það að sjálfsögðu mikið lífskjaramál fyrir Húsvíkinga að fá stærri og betri matvöruverslun í bæinn.

„En að byggja upp bæ krefst framtíðarsýnar og ég get ekki séð hana þarna úti á túni,“ segir Sigurborg Ósk.

Fjarlægðin við bæinn vandamálið

„Það er verið að staðsetja verslunarmiðstöðina bókstaflega úti á túni og fyrir utan byggðina,“ segir Sigurborg og áréttir að fjarlægðin við bæinn sé fyrst og fremst vandamálið við fyrirhugaða staðsetningu verslunarmiðstöðvar við Norðaust­ur­veg sunn­an Þor­valdsstaðaár, skammt fyrir utan Húsavík.

Jafnframt segir hún áformin umferðarskapandi enda staðsetningin ekki í alfaraleið flestra

„Ég eiginlega trúi ekki að það eigi að gera sömu mistök og önnur sveitarfélög hafa verið að gera sem að færa alla þjónustu út í jaðrana og draga þannig allt líf úr kjarnanum sínum.“

Húsavíkingar almennt mjög virkir 

Sigurborg segir Húsavík í núverandi mynd vel skipulagðan bæ. Húsvíkingar séu almennt mjög virkir og þá sé ótrúlegur fjöldi fólks sem hjólar og gengur í næstu þjónustu, enda vegalengdir stuttar og öll þjónusta í kjarnanum.

Í ljósi þessa hvetur Sigurborg sveitastjórnina til að huga að framtíðarsýn bæjarins og leita þannig leiða til að vera öðrum bæjarfélögum fyrirmynd. Til að mynda með leið sem er hluti af nýrri landskipulagsstefnu og ber yfirskriftina "tuttugu mínútna bærinn."

„Hugmyndin snýst um að gera sem flestum kleift að fara erinda sinn gangandi eða hjólandi, að íbúar þurfi ekki að ferðast lengra frá heimili sínu en því sem nemur stuttri ferð gangandi eða hjólandi til að sinna helstu þáttum daglegs lífs,“ segir hún og nefnir matvöruverslanir, skóla og vinnu sem dæmi.

„Þessar áherslur þær passa fullkomlega hér á Húsavík eins og staðan er í dag.“

„Tækifæri til að sýna hvernig bæir geta vaxið inn á við“

Spurð út í ummæli Hjálmars Boga Hafliðasonar, forseta sveitastjórnar Norðurþings, um að sveitarfélagið eigi ekki stað í miðbænum til að reisa verslunarmiðstöð á, segir Sigurborg bæinn ekki endilega þurfa að eiga tilbúna lóð til að afhenda viðkomandi.

„Bærinn getur verið í viðræðum við núverandi lóðarhafa og virku samtali um uppbyggingu á ólíkum reitum innan bæjarins,“ segir Sigurborg og nefnir fullt af svæðum sem hægt væri að rýna fyrir fyrirhugaða matvöruverslun.

„Akkúrat núna gefst okkur á Húsavík tækifæri til að sýna hvernig bæir geta vaxið inn á við og þróað enn sterkari miðkjarna í hjarta bæjarins. Ég myndi segja það á ábyrgð kjörinna fulltrúa að tryggja hagsmuni almennings framar öllu. Ekki ana af stað með uppbyggingu sem er heppilegust fyrir verktaka eða verslunarkeðjur, heldur hugsa fyrst og fremst um íbúana sem hér búa.“

„Þá er voða lítið eftir hér í miðbænum“

Því næst spyr blaðamaður Sigurborgu hvort verslunarmiðstöð í jaðri bæjarins myndi rýra gildi verslunar í miðbænum. Sigurborg segir það enga spurningu enda skipti máli hvort önnur þjónusta haldist í kjarna bæjarins eða færist jafnframt í jaðar hans.

„Þarna verða kannski tvær þrjár aðrar verslanir líka. Það getur verið að Vínbúðin færi sig þangað og kannski ein eða tvær aðrar verslanir í viðbót og þá er voða lítið eftir hér í miðbænum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert