Tilkynnt var um yfirstandandi innbrot í verslun í Reykjavík á fjórða tímanum í nótt.
Þegar lögreglan kom á vettvang var einstaklingur í annarlegu ástandi að eiga við inngangshurð verslunarinnar. Málið var leyst á vettvangi, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um svipað leyti aðstoðaði lögreglan, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, ökumann vegna umferðaróhapps. Engin slys urðu á fólki.
Laust fyrir klukkan eitt í nótt var ökumaður stöðvaður í Reykjavík grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hann einnig með fíkniefni meðferðis. Hann var látinn laus eftir hefðbundið ferli.

