Fjármagn fylgir nemendum óháð rekstrarformi háskóla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti málið á …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur boðið skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

Sjálfstætt starfandi háskólar eru þrír: Háskólinn í Reykjavík (HR), Háskólinn á Bifröst (HB) og Listaháskóli Íslands (LHÍ) en undanfarin ár og áratugi hafa framlög til þeirra verið 60-80% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, en Áslaug Arna kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Skert framlög hafa óhjákvæmilega leitt til þess að þeir hafa innheimt skólagjöld sem geta fyrir þriggja ára grunnnám hvers nemanda numið um 1,5-2 milljónum króna og tveggja ára meistaranám um 1,5-2 m.kr. Samtals geta gjöldin fyrir 5 ára háskólanám því verið um 3-4 m.króna, segir í tilkynningunni. 

Breytingin geti tekið gildi í haust 

Hafi einhver skólanna þriggja áhuga á þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að breytingin geti tekið gildi í áföngum frá og með hausti 2024. Breytingin, ef af yrði, yrði fjármögnuð innan ramma fjárlaga 2024 og innan gildandi fjármálaáætlunar 2025-2026.

„Sú hugmyndafræði að fé fylgi nemendum að fullu óháð því hvaða skóla þeir sækja er ekki ný af nálinni í menntakerfinu, þó svo að hún sé það á háskólastiginu. Í anda þess að fé fylgi nemanda geta háskólarnir fallið frá skólagjöldum sínum gegn því að fá fullt opinbert framlag. Ég tel sanngjarnt að nemendur hafi jöfn tækifæri til náms, óháð rekstrarformi skóla, og að þeir sem velji að stunda nám í sjálfstætt starfandi háskóla standi jafnfætis þeim sem stundi nám í hinum opinberu skólum. Ríkið á ekki að gera upp á milli nemenda,“ er haft eftir Áslaugu Örnu.

Sambærilegt skráningargjald í alla háskóla

Boðið til sjálfstætt starfandi háskóla kemur í kjölfar nýrrar árangurstengdrar fjármögnunar háskólastigsins sem var kynnt í september 2023. Fram til þessa hafa sjálfstætt starfandi háskólar á Íslandi fengið skert framlag með hverjum nemenda frá ríkinu en hafa þess í stað innheimt skólagjöld.

Til að draga úr rekstraróvissu skólanna og ógagnsæi í fjármögnun hefur verið gert ráð fyrir að árangurstengda fjármögnunin festi í sessi að skólarnir fái sem nemi 75% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert en með þessari ákvörðun hafa sjálfstætt starfandi háskólarnir nú val um að falla frá innheimtu skólagjalda gegn 100% framlagi.

Nemendur skóla sem þekkjast boðið myndu því aðeins greiða skrásetningargjöld sambærileg þeim sem eru hjá opinberu háskólunum, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Kostnaðaraukinn ræðst af nokkrum þáttum

Kostnaðarauki ríkisins sem hlytist af 100% fjármögnun til sjálfstætt starfandi háskóla myndi ráðast af nokkrum þáttum; hversu margir skólar munu þiggja boðið og hvort þeir vilji að bæði bakkalár- og meistarastigið yrðu fjármögnuð að fullu.

Hver sem niðurstaðan yrði myndi hún að hámarki kosta um 2 milljarða króna sem rúmast innan ramma fjárheimilda háskólastigsins.

Ein af áherslum stjórnvalda er efling háskólastigsins. Þar er meðal annars horft til þess að auka gæði þess, fjölbreytileika og bæta aðgengi. Sjálfstætt starfandi skólarnir gegna lykilhlutverk á háskólastigi en um 26% ársnema við íslenska háskóla stunda þar nám. Skólarnir gegna einnig mikilvægu hlutverki þegar kemur að tæknigreinum sem segja má að sé sérstaða HR, listgreinum sem er sérstaða LHÍ og fjarnámi sem er sérstaða HB. Því má ganga út frá því að þessir þrír skólar, líkt og opinberu skólarnir, geti sinnt stærri og fjölbreyttari hópi nemenda ákveði þeir að hverfa frá skólagjöldum.

Telja sig síður hafa efni á að sækja háskólanám 

Í því samhengi má t.d. nefna unga karlmenn sem sækja mun síður í háskólanám en ungar konur. Í nýlegri könnun á meðal útskriftarnema í framhaldsskólum kom þannig í ljós að mun algengara er að ungir menn telji sig síður hafa efni á að sækja háskólanám en ungar konur.

Nauðsynlegt er að fjölga háskólamenntuðum körlum, en hlutfall karla á aldrinum 25-34 ára sem lokið hafa háskólanámi er 29% hér á landi en 41% innan OECD. Væri hlutfallið eins á Íslandi myndi það eitt og sér fjölga sérfræðingum um meira en 7500.

„Við í ráðuneytinu höfum lagt kapp á að fjölga nemendum í raun-, tækni- og listgreinum enda er Ísland eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að fjölda nemenda í þessum greinum,“ er haft eftir Áslaugu Örnu og bætt við:

„Með því að gefa nemendum aukið val gefum við stærri og fjölbreyttari hópi fólks kleift að stunda nám í greinum sem skipta miklu máli fyrir samkeppnishæfni okkar til framtíðar og stórauka tækifæri til náms á Íslandi. Nú er það skólanna að vega og meta hvernig þeir bregðast við en næstu daga mun ég eiga frekari samtöl og samráð við nemendur og starfsfólk skólanna. Ég vonast til að fá svör frá þeim sem fyrst svo að nemendur þeirra skóla sem hafa áhuga á að ganga að tilboðinu njóti þess sem fyrst og helst strax í haust.“

Sambærilegt fyrirkomulag og á Norðurlöndunum

Við ákvörðunina um að bjóða sjálfstætt starfandi skólum að falla frá skólagjöldum gegn fullu fjárframlagi var m.a. horft til fyrirkomulagsins á Norðurlöndunum. Fyrir nemendur ríkjanna, Sviss og þeirra sem koma frá löndum innan ESB og EES gildir eftirfarandi:

  • Danmörk: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Fjölbreytt rekstrarform. Örfáir sérhæfðir og fámennir skólar með skólagjöld án ríkisframlags.
  • Finnland: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Allir háskólar nýlega orðnir sjálfseignarstofnanir.
  • Svíþjóð: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Fjölbreytt rekstrarform.
  • Noregur: Rannsóknaháskólar allir opinberir og án skólagjalda, flestir nemendur þar. Fagháskólar af ýmsum rekstrarformum, sumir fá fullt framlag og eru án skólagjalda en þrír með skert framlag og skólagjöld. Þetta eru litlir, sérhæfðir skólar: í viðskiptum, hönnun og trúmálum. Mikill meirihluti norskra nemenda er í skólagjaldalausu námi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka