„Við erum bara að horfa á áframhaldandi ferli sem hófst í nóvember,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Á hann þar við eldsumbrot síðustu viku og landris í kjölfar þeirra en rétt eins og margir jarðvísindamenn segir Magnús að búast megi við atburði eftir 3-4 vikur að því gefnu að hegðun jarðarróta breytist ekki.
Magnús Tumi útskýrir að kvikuinnflæði í geymsluhólfið undir Svartsengi virðist vera svipað og það var í síðustu eldsumbrotum, í kring um 5-7 rúmmetra á sekúndu. Þrýstingurinn undir jarðveginum komi því til með að byggjast upp.
„Og það virðist vera núna að eftir þrjár, fjórar vikur, þá sé kominn það mikill þrýstingur að þetta kemur upp,“ bætir jarðeðlisfræðingurinn við en bendir þá á að það komi almennt ekki mikil kvika í þessum eldgosum.
„Gosið síðast, sú hegðun kemur í sjálfu sér lítið á óvart. Það var mjög langur tími þarna í desember en þá var kvikan að leita suður. Hún þurfti að fara lengri leið og hún fór í suður vegna þess að það var búið að opna þarna. Spennan í berginu, það átti eftir að opna meira í átt að Grindavík,“ segir Magnús Tumi.
„Síðan núna fer þetta [kvikan] beint upp og miðað við þær mælingar sem eru gerðar í GPS og aðrar […] var eiginlega engin útvíkkun á bergganginum,“ bætir hann við. Sem þýðir að búast megi við svipaðri hegðun í komandi eldsumbrotum.
Hann vill meina að þessi hegðun sé eitthvað sem við verðum að búa okkur undir að gerist aftur.
„Það getur líka gosið norðar á sprungunni. Það getur farið kannski aftur aðeins sunnar. Eða aftur þarna upp. En meðan þetta landris heldur áfram megum við reikna með að við fáum endurtekna svona atburði,“ segir hann.
Magnús tekur þó fram að jarðvísindamenn læri meira af hverjum atburði.
„Svona hegðun […] mun ekki standa samfellt í aldir. Ef svo væri þá kæmi upp tíu sinnum meiri kvika en gerist. En við getum búist við að við fáum tímabil sem geta þess vegna staðið yfir í nokkur ár á sömu sprungunum, sömu stöðunum.“
Eins og þetta er að þróast, spáirðu atburði eftir þrjár til fjórar vikur?
„Já, ef það hegðar sér með svipuðum hætti. Þá má búast við að bilið á milli gosa geti verið þrjár til fjórar vikur.“