Getur haldið áfram næstu mánuði

Átta dagar eru liðnir frá síðasta gosi á Reykjanesskaganum.
Átta dagar eru liðnir frá síðasta gosi á Reykjanesskaganum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að atburðarásin á Reykjanesskaganum sé komin í sama farveg og fyrir síðasta gos og haldi hún áfram á sömu braut þá séu tvær til þrjár vikur í næsta atburð

Benedikt segir erfitt að segja til um staðsetningu mögulegs goss. „Þetta er aðeins að hlaupa til á sprungukerfinu en líklegast er það komi upp nær miðjunni á henni heldur en við jaðrana,“ segir Benedikt við mbl.is.

Landrisið á Svartsengissvæðinu heldur áfram og er hraði þessi mjög svipaður því sem var eftir síðustu kvikuhlaupin. „Landrisið er svona hálfur til einn sentimeter á dag þar sem það er mest.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands. mbl.is

Hvað getur svona atburðarás endurtekið sig oft?

„Það er væntanlega háð kvikuflæðinu að neðan og það er spurning hvað það endist lengi. Það virðist smám saman vera að draga úr hraðanum en við eigum eftir að skoða það betur. En ég myndi halda að þetta gæti haldið áfram eitthvað fram á vor eða sumar og jafnvel lengur,“ segir Benedikt.

Virknin í Eldey aukist eftir atburðina á Reykjanesskaganum

Töluverð skjálftavirkni hefur verið í gangi við Eldey á Reykjaneshryggnum. Spurður út í það segir Benedikt:

„Við erum nýbúin að koma fyrir GPS-stöð í Eldey og það er ekkert að sjá á henni. Ef þetta er eitthvað kvikutengt þá er það ekki í því magni að við séum að sjá einhverjar verulegar landbreytingar,“ segir Benedikt.

Hann segir að viðvarandi skjálftavirkni hafi verið í gangi á þessu svæði áratugum saman. 

„Maður veit aldrei hvenær eða hvort eitthvað byrjar þarna á næstunni. Það er búin að vera mikil virkni og í raun hefur virknin við Eldey aukist eftir að það gaus í Fagradalsfjalli og svæðið í kringum Svartsengi fór í fullan gang. Undanfarin þrjú ár hefur því verið aukin virkni við Eldey.“

Benedikt segir að mögulega sé um spennubreytingar eða eitthvað slíkt að ræða sem sé að ýta við þessu og ekki sé hægt að útiloka kviku þótt það sé ekkert sem bendir til þess eins og er.

„Við fylgjumst grannt með þessu og það var ákveðið í vetur að ráðast í að koma upp GPS-stöð. Ég held að við getum útilokað að það sé eitthvað mikið kvikumagn ef það er.“

Kort af staðsetningum skjálfta klukkan 15.30 í dag.
Kort af staðsetningum skjálfta klukkan 15.30 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka