Ísland verði leiðandi þegar kemur að orkuöryggi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jennifer Granholm, …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, heimsóttu vinnslusvæði Carbfix á Hellisheiði í morgun. mbl.is/Arnþór

Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, segir tví­hliða sam­starf Banda­ríkj­anna og Íslands á sviði orku- og lofts­lags­mála mikilvægt.

Granholm er í opinberri heimsókn hér á landi í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vegna tvíhliða samstarfs ríkjanna á sviði orku- og loftslagsmála.

Samstarfinu var formlega hleypt af stokkunum á umræðufundi fulltrúa Íslands og Bandaríkjanna í Hörpu í dag en í morgun heimsóttu ráðherrarnir Hellisheiðarvirkjun og vinnslusvæði Carbfix á Hellisheiði.

„Mikilvægt að skiptast á upplýsingum“

Granholm segir í samtali við mbl.is að grunnstoðir samstarfs ríkjanna tveggja liggi í raun í þremur  mismunandi tæknilausnum; nýtingu hreins jarðhita, hvernig losa má andrúmsloftið við koltvísýring og bæði framleiðslu og nýtingu vetnis.

Bendir ráðherrann á að á Íslandi sé verið að þróa ökutæki sem bæði ganga fyrir vetni og rafmagni og að í Bandaríkjunum sé einnig unnið mikið með vetni.

„Það er mikilvægt að skiptast á upplýsingum um allar þrjár tæknilausnirnar og að taka sameiginlega þátt í verkefnum á fjölþjóðlegum vettvangi svo Ísland verði leiðandi og geti deilt jafnt með öðrum ríkjum sem Bandaríkjunum því sem Ísland hefur áunnið í tengslum við orkuöryggi.“

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, tók á móti erlendu …
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, tók á móti erlendu gestunum í anddyri stöðvarhúss Hellisheiðarvirkjunar. mbl.is/Arnþór

Samtalið er opið

Aðspurð er Granholm ekki tilbúin að gefa upp hvað ráðuneyti hennar hyggst leggja til mikið fjármagn í tvíhliða samstarf ríkjanna tveggja en segir að ráðuneytið hafi komið að fjármögnun fjölda nýsköpunarverkefna í Bandaríkjunum með íslenskum fyrirtækjum, þar á meðal Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar.

„Við höfum alltaf áhuga á frekari tækifærum til slíks samstarfs og samtalið er opið hvað það varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka