Fæstir upplifa alvarleg einkenni kulnunar

Mikið álag og streita eru einkennandi fyrir nútímaþjóðfélag og mikilvægt …
Mikið álag og streita eru einkennandi fyrir nútímaþjóðfélag og mikilvægt er að finna leiðir til að mæta því. Ljósmynd/Colourbox

„Það er hægt að segja að kulnun sé nokkurs konar andlegt skipbrot þar sem einstaklingurinn upplifir gífurlega þreytu allan sólarhringinn,“ segir Wilmar Schaufeli, prófessor emeritus í vinnu- og skipulagssálfræði við Utrecht-háskóla í Hollandi, en hann hélt fyrirlestur á málstofu í Háskólanum í Reykjavík í gær, fimmtudag.

Mikið hefur verið skrifað um kulnun frá því að fyrst var talað um fyrirbærið á 8. áratug síðustu aldar og hefur hugtakið verið notað yfir einkenni sem geta verið allt frá því að vera erfið og haft neikvæð áhrif á frammistöðu fólks í starfi yfir í það að vera svo svæsin að fólk verður með öllu óvinnufært.

„Það sem flestir tengja við kulnun er, auk þessarar miklu þreytu, erfiðleikar við að beita sér andlega. Þar má nefna erfiðleika við einbeitingu og að hafa eðlilegan skýrleika og yfirsýn yfir það sem fólk er að fást við,“ segir hann og bætir við að einnig hafi kulnun mikil áhrif á tilfinningalíf fólks.

Reiðiköst og depurð

„Annar fylgifiskur kulnunar er að hafa illa stjórn á tilfinningum sínum og fólk getur snöggreiðst og orðið árásargjarnt í orðum við fólk í kringum sig, eða að það dregur sig inn í sína skel og upplifir mikla depurð og sorg. Stjórnin á tilfinningunum er ekki eins og hún væri við eðlilegar aðstæður og ástæðan fyrir því er þessi mikla þreyta. Til þess að stjórna bæði andlegri getu, hugsunum þínum, athygli og tilfinningum þínum þarftu að hafa orku til að geta það. Hana skortir hjá fólki sem er komið í kulnun.“

Kulnun getur líka birst í líkamlegum einkennum eins og höfuðverkjum eða örum hjartslætti, sem ástandið kallar fram en á sér ekki aðrar líkamlegar orsakir.

2% óstarfhæf í Hollandi

Schaufeli segir að mikilvægt sé að gera greinarmun á kulnun sem er orðin svo slæm að viðkomandi getur engan veginn starfað lengur og einkennum sem líkjast kulnun en eru ekki orðin svo slæm að fólk sé með öllu óvinnufært. „Það skiptir máli að gera þennan greinarmun, því þau sem hafa mildari einkenni kulnunar geta samt sinnt starfi sínu, en kannski ekki jafn vel og þau gerðu og þau upplifa mikla þreytu þegar starfsdegi er lokið.“

Í heimalandi Schaufeli, Hollandi, eru árlega gerðar kannanir á kulnun. „Í Hollandi upplifa um 17% starfsfólks mildari einkenni kulnunar. Þessi tala hefur hækkað mikið, því fyrir 10-15 árum var þessi tala um 10%. En þegar við tölum um verstu tilfelli kulnunar, þar sem fólk er gjörsamlega óvinnufært, er það miklu lægri tala, eða um 2% í Hollandi í dag.“

Nánar var fjallað um kulnun í Morgunblaðinu á fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert