Jakob Daníelsson, forseti Stúdentafélags Háskóla Reykjavíkur, segir tölvuárásina sem gerð var á háskólann þann 2. febrúar klárlega hafa haft áhrif á nemendur.
Áhrifin séu þó ekki teljandi og hafa engar kvartanir borist til stúdentafélagsins vegna árásarinnar.
„Ég held að það ríki samhugur meðal nemenda um að skólayfirvöld séu að gera allt sem þau geta eins og staðan er núna,“ segir Jakob.
Árásin var gerð á tölvukerfi HR aðfaranótt föstudagsins 2. febrúar. Í gær sendi skólinn frá sér tilkynningu þar sem fram kom að tölvuþrjótarnir hafi náð að hala niður 185 gígabætum af gögnum af miðlægum drifum skólans.
Gögnin sem tölvuþrjótarnir komust yfir voru geymd á drifum sem hafa að geyma upplýsingar úr starfsemi HR. Þar á meðal upplýsingar sem eru viðkvæms eðlis. Ekkert bendir þó til þess að þrjótarnir hafi misnotað upplýsingarnar, en skólinn segir ekki hægt að útiloka að þær hafi verið afritaðar eða birtar opinberlega.
Jakob segir þetta eðli málsins samkvæmt óþægilegt fyrir nemendur þar sem enn leikur hætta á að þrjótarnir muni birta eitthvað af þeim upplýsingum sem þeir komust yfir.
„Það er náttúrulega rosaleg óvissa og óþægilegt fyrir þá nemendur sem eru með viðkvæmar upplýsingar sem gætu þá lekið.“
Spurður hvaða áhrif árásin hafði á nemendur fyrst um sinn segir Jakob að til að byrja með hafi öll kennslukerfi skólans verið tekin úr sambandi auk þess sem netpóstur skólans lá niðri. Hann þakkar þó fyrir að árásin hafi átt sér stað rétt fyrir helgi, því þannig hafði hún minni áhrif á nemendur.
Þegar nemendur skólans mættu að morgni mánudags eftir tölvuárásina hafði síðan verið sett upp tölvuaðstoð við inngang skólans þar sem nemendur gátu m.a. fengið aðstoð við að endurstilla lykilorð sín.
„Það voru tíu manns sem tóku á móti manni og leiðbeindu hvernig við ættum að endurstilla lykilorðin og hvað við ættum að gera.“
Enn í dag eru tvö kerfi lokuð sem nemendur ættu að hafa aðgang að. Annars vegar kerfi sem heitir Myschool og hins vegar kerfið Portal. Jakob segir þessi kerfi hafa verið tekin úr sambandi, en kveðst ekki vita til þess að þrjótarnir hafi komist yfir þær upplýsingar sem geymdar eru í kerfunum.
Þetta skapaði vandræði fyrir þá nemendur sem voru að sækja um skóla eða vinnur og þurftu að fá einkunnarspjöld segir Jakob og áréttar að einungis hafi verið um skammtímaóþægindi að ræða sem nemendaskrá skólans leysti hratt með handvirkum hætti.
Hann segir árásina þó hafa haft mun víðtækari áhrif á kennara og starfsfólk skólans þar sem strauja þurfti allar tölvur þeirra og setja þær upp á nýjan leik.
„Mörg eru bara að fá tölvupóstinn sinn og gögnin sín fyrst núna.“
Þannig hafði árásin rosaleg áhrif á kennslu fyrstu vikuna að sögn Jakobs enda gátu margir kennarar ekki verið með fyrirlestra þar sem nota þarf tölvu til að varpa kennsluefninu upp á vegg í gegnum skjávarpa.
„Það voru bara fundnar nýjar leiðir til að kenna, farið aftur á tússtöfluna,“ segir Jakob glettinn og bætir við:
„Það var aðallega það sem hafði áhrif á nemendur til að byrja með og það að vera netlaus.“