Traust til Seðlabankans heldur áfram að minnka i Þjóðarpúlsi Gallup, fer niður um 7% og bera nú 32% mikið traust til bankans. Traust til bankans hefur dregist saman um samtals um 30 prósentustig á þremur árum en það jókst um 31 prósentustig á árunum tveimur þar á undan.
Landhelgisgæslan nýtur mests trausts almennings. Liðlega níu af hverjum tíu bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar eða álíka margir og í fyrra. Bankakerfið nýtur minnst trausts þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum.
91% þjóðarinnar bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar af þeim stofnunum sem mældar eru í könnuninni.
Háskóli Íslands, embætti forseta Íslands og lögreglan koma þar á eftir. Mikið traust til Háskóla Íslands mælist 73%, til embætti forseta Íslands 71% og til lögreglunnar 70%.
Traust til heilbrigðiskerfisins er óbreytt frá því í fyrra og mælist 57%. Traust til ríkissáttasemjara mælist 55% sem er örlítið hærra en í fyrra.
Rúmlega fjórðungur eða 27% bera mikið traust til Alþingis og 26% til þjóðkirkjunnar sem er svipað hlutfall og í fyrra.
Borgarstjórn Reykjavíkur endurheimtir það traust sem hún missti árið á undan, en 19% bera mikið traust til hennar. Hlutfallið hækkar um sex prósentustig frá síðustu mælingu og er svipað og það var árin 2019 til 2022.
Bankakerfið nýtur minnst trausts þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum en 16% bera mikið traust til þess. Hlutfallið mælist svipað og í fyrra.