Jafnlaunavottun verið ágætis verkfæri

Þorbjörg, þingmaður Viðreisnar, kveðst ekki vilja leggja niður jafnlaunavottun.
Þorbjörg, þingmaður Viðreisnar, kveðst ekki vilja leggja niður jafnlaunavottun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, kveðst ekki tilbúin til að leggja niður jafnlaunavottun og segir hún lögin vera verkfæri til að tryggja launajafnrétti.

Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, greindi frá því í hlaðvarpinu Þjóðmál að hún ætli að leggja fram frum­varp þess efn­is að af­nema jafn­launa­vott­un. Í hlaðvarpinu sagði Diljá meðal annars:

„Þetta er nátt­úru­lega hrika­legt bákn sem Viðreisn ber ábyrgð á. Svona þeirra barn úr þeirra fortíð í stjórn­ar­sam­starfi,“ sagði hún og bætti við:

„Ég held bara að það sé búið að sýna sig – og ég er auðvitað með gögn því til stuðnings – að þetta er bara al­gjört rusl þetta kerfi.“

Jafnlaunavottun „flaggskip í ríkisstjórn Bjarna“

Þorbjörg segir í samtali við mbl.is að það hafi verið í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem frumvarpið hafi verið samþykkt og svo seinna meir innleitt af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Árið 2017 voru lögin samþykkt og var það Þorsteinn Víglundsson, þáverandi ráðherra Viðreisnar, sem lagði það fram.

„Þetta er nú mál sem var í stjórnarsáttmála í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar – var ákveðið flaggskip í ríkisstjórn Bjarna. Í því samhengi tilheyrir þetta mál nú líka Sjálfstæðisflokknum,“ segir Þorbjörg.

Eðlilegt að rýna kostnaðinn

Hún segir það ekki vera að ástæðulausu að Ísland sé leiðandi á heimsvísu í jafnréttismálum.

„Jafnlaunavottunin er svona eitt af þeim verkfærum sem við höfum til að tryggja launajafnrétti. Ég myndi kannski segja að það komi mér ekki alveg á óvart hver afstaða Sjálfstæðismanna er, eða hefur verið, til jafnréttismálanna,“ segir Þorbjörg.

Hún segir þó að það sé eðlilegt að rýna hver kostnaðurinn og árangurinn af innleiðingu jafnlaunavottunar hefur verið.

„Auðvitað á að skoða það í ljósi reynslunnar hvernig útkoman er og mér finnst það bara vera sjálfsagt að gera það.“

Hún segir að það þurfi að vera jafnvægi á milli markmiða aðgerðarinnar og kostnaðarins fyrir atvinnulífið.

„Ég væri ekki til­bú­in að fall­ast á það að við ætl­um að gefa frá okk­ur mark­miðið um launa­jafn­rétti og ætla slá það út af borðinu. Jafnlaunavottunin er einmitt ágætis verkfæri til að ná fram því mikilvæga markmiði.“

Ekki marktækur munur á fyrirtækjum með eða án vottunar

Hún kveðst þó taka undir með Diljá að skoða þurfi hvers konar umhverfi sé verið að skapa atvinnulífinu. Hún segir einnig að ríkisstjórnin þurfi að líta í eigin barm.

„Ríkisstjórnin samþykkti núna í síðustu fjárlögum að hækka tekjuskatt á lögaðila um 1% og var þar að vísa í að fyrirtækin ættu að gefa ríkisstjórninni til baka eftir stuðning í heimsfaraldri, sem mér fannst nú öfugsnúin nálgun og ekki það sem fyrirtækin þurfa á að halda,“ segir hún og vísar í verðbólguna.

Fram kom í svari forsætisráðherra á síðasta ári við fyrirspurn Diljár að samkvæmt rannsókn Hagstofu mælist ekki marktækur munur á kynbundnum launamun hjá aðilum sem hafa fengið vottun og hinum sem ekki hafa fengið hana.

Vakti Diljá athygli á þessu í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun, eins og Vísir greindi frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert