Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um einstakling í annarlegu ástandi að grýta steinum í hús og bifreiðar í Múlahverfi í Reykjavík í dag.
Lögregla brást við útkallinu en ekki er ljóst hvernig málum var lyktað.
Nóg var um að vera hjá lögreglunni í hverfi 105 í dag, þar var ökumaður til að mynda stöðvaður og reyndist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að maðurinn hafði aldrei öðlast tilskilin réttindi til að aka bifreið, auk þess sem hann var með fíkniefni í fórum sínum. Var ökumaðurinn færður í hefðbundið ferli á lögreglustöð áður en hann var látinn laus.
Til viðbótar var tilkynnt um umferðarslys í hverfi 105 þar sem skemmdir urðu á bifreið, tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi um borð í strætisvagni og tilkynnt um þjófnað úr verslun.
Í Árbænum var einstaklingur handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna, var sá vistaður í fangaklefa vegna málsins.
Þá var ökumaður stöðvaður í Árbænum og reyndist sá vera sviptur ökurétti.
Einnig var tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi á almannafæri í Hafnarfirði. Var hann vistaður í fangaklefa vegna ástands hans.
Loks var tilkynnt um innbrot í bifreið í Garðabæ og er málið til rannsóknar.