Mega dvelja í Grindavík á eigin ábyrgð

Lögreglan mælir ekki með að dvalið sé í bænum næturlangt.
Lögreglan mælir ekki með að dvalið sé í bænum næturlangt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að heimila afmörkuðum hópi fólks aðgang að bænum. Aðstæður þar eru sagðar hættulegar og er ekki mælt með því að íbúar dvelji í bænum næturlangt.

Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.

Gildir í viku eða skemur

Fyrirkomulagið tók gildi klukkan 16 í dag og gildir í viku eða skemur eftir atvikum. 

Þar sem eldgos getur hafist með stuttum fyrirvara brýnir lögreglustjóri fyrir íbúum og starfsmönnum að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.

„Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik.   Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri.  Lögreglustjóri mælir ekki með því að fólk dvelji í bænum,“ segir tilkynningu.

Sprungur geti opnast án fyrirvara

Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast meðal annars í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun en þá hafa sprungur einnig verið girtar af.

Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega, að því er segir í tilkynningunni. Fólk er því beðið um að halda sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.

Mjög mikil hætta á hraunflæði hjá Bláa lóninu

Á starfssvæði Bláa Lónsins, Northern Light Inn og HS orku er talin mjög mikil hætta á hraunflæði að mati Veðurstofu.

„Um tíma þrengdi að aðkomuleiðum þegar hraun rann yfir Grindavíkurveg og lokaði leiðinni inn að Bláa Lóninu, Northern Light Inn og HS orku. Lagður var vegur yfir ný runnið hraunið og aðkoma um Grindavíkurveg opnuð að nýju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert