„Þetta er hinn íslenski her“

Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/HS Orka

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst stolt af iðnaðarmönnunum sem hafa starfað í Svartsengi við að tryggja innviði í náttúruhamförunum. Segir hún þá vera her okkar Íslendinga.

Guðrún kvaðst hafa fengið „sand í augun“ við að sjá myndband sem sýnt var á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins þar sem iðnaðarmenn fóru yfir reynslusögur sínar frá störfum á Reykjanesskaganum í kringum náttúruhamfarirnar.

„Ég er náttúrlega pínu klökk, ég ætla bara að fá að viðurkenna það – ég fékk sand í augun,“ sagði hún aðspurð um viðbrögð við þessum reynslusögum.

Iðnþingið er haldið í Silf­ur­bergi í Hörpu á í dag á milli 14.00-16.00 og ber yf­ir­skrift­ina „Hug­myndalandið – dýr­mæt­asta auðlind framtíðar.“

Hringja í dómsmálaráðherra að fyrra bragði

Vakið var athygli á því að hátt í 400 iðnaðarmenn hafa verið að störfum á Reykjanesskaga í björgunar- og uppbyggingarstörfum tengt náttúruhamförunum sem riðið hafa yfir síðustu mánuði.

„Ég er alveg ólýsanlega stolt og þakklát. Ég er stolt yfir því að við eigum þessa þekkingu og við eigum fólk af þessu kalíberi. Svo er ég svo þakklát fyrir þessa einstaklinga, hvernig þeir svara kallinu og það þarf ekki einu sinni að hringja. Þeir hringja í dómsmálaráðherra: „heyrðu ég er hérna meða gröfu. Hvar á ég að mæta og klukkan hvað“ og svo mæta þeir og þeir fara ekki einu sinni heim. Þeir eru allan sólarhringinn sleitulaust,“ sagði Guðrún.

Hún minntist á það að hún segir reglulega við fólk að Ísland sé herlaus þjóð, en í reynd séu þessir iðnaðarmenn okkar hermenn.

„En okkar orrustur eru núna gegn náttúruöflunum og þetta er hinn íslenski her,“ sagði Guðrún og uppskar lófaklapp frá fólki í salnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert