Teljum þetta ekki góða nýtingu á skattfé

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við reglugerðardrög matvælaráðherra um …
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við reglugerðardrög matvælaráðherra um sjálfbæra landnýtingu. mbl.is

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við reglugerðardrög matvælaráðherra um sjálfbæra landnýtingu.

Þetta kemur fram í aðsendri grein þingmannanna í nýjasta tölublaði Bændablaðsins en þeir eru Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Teitur Björn Einarsson og Vilhjálmur Árnason.

Í grein þingmanna segir meðal annars að að þeirra mati sé furðulegt að kveðið sé á um að land sé ekki talið beitarhæft fyrir búfé ef brekkur eru yfir þrjátíu gráðu halla, fjall fer yfir 600 metra hæð eða ef undir tuttugu prósent lands sé þakið gróðri.

Er ætlun ráðherra að leggja kostnaðinn á bændur?

Þingmennirnir benda á að margir bændur búi við og hafi beitt lönd sem þessi ákvæði eiga við í áratugi með góðum árangri. Þeir segja einnig í aðsendu greininni að matið verði ávallt huglægt og það yrði ógerningur að tryggja jafnræði og sömu viðmið um löglegt beitiland um land allt.

„Í þessu samhengi er ágætt að hafa það í huga að áætlað er að hver kílómetri af lagningu girðinga kosti 5 milljarða króna. Er ætlun ráðherra að leggja þann kostnað á bændur eða ætlar hún að punga út nokkrum milljörðum til þess að uppfylla þær óraunhæfu kröfur sem hún vill gera til bænda. Það teljum við ekki góða nýtingu á skattfé,“ segir ennfremur í grein þingmannanna.

82 umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka