Berjast við gróðurelda vestan megin við gíginn

Unnið er að því að hefta útbreiðslu vestan megin við …
Unnið er að því að hefta útbreiðslu vestan megin við gíginn. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Slökkvilið Grindavíkur hefur barist við gróðurelda við gosstöðvarnar alla páskana. Gróðureldar loga enn á svæðinu. 

Ein­ar Sveinn Jóns­son, slökkviliðsstjóri slökkviliðsins í Grinda­vík, segir slökkvistarf hafa gengið vel þó eldar logi enn á töluvert stóru svæði vestan megin við gíginn. 

„Þetta gengur hægt og bítandi. Það er torfarið á þetta svæði, en við erum vel mannaðir og tækjaðir þannig að þetta gengur samkvæmt áætlun.“

Markmiðið að hefta útbreiðslu 

Spurður hvort Slökkvilið Grindavíkur vinni eitt að því að slökkva eldana svarar Einar því til að þeim hafi borist aðstoð frá Brunavörnum Árnessýslu og Brunavörnum Suðurnesja.

Einnig hafi aðstoð borist frá Björgunarsveitinni Þorbirni, auk þess að notast við tankbíl í eigu Björgunarsveitarinnar í Vík í Mýrdal. 

„Þeir eiga öflugasta trukkinn þannig að við höfum verið að nota hann,“ svarar Einar spurður hvers vegna hafi verið fenginn tankbíll frá Vík. Að öðru leiti er notast við buggy-bíla. 

Einar segir markmiðið að ná að hefta útbreiðslu eldsins vestan megin við gíginn þannig að auðveldara verði að halda gróðureldunum niðri.

„Þannig að þetta stækki ekki og helst að ná þessu niður eins og við náðum þessu niður austan megin við gíginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert