Flæðir meira inn en út

Eldgos við Sundhnúkagíga og gróðureldar norður af Grindavík á föstudaginn …
Eldgos við Sundhnúkagíga og gróðureldar norður af Grindavík á föstudaginn langa, 29. mars 2024. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Land virðist aftur tekið að rísa í Svartsengi þó enn sjáist ekki fyrir enda eldgossins við Sundhnúkagíga. Meiri kvika streymir inn í kvikuhólfið undir Svarstengi heldur en flæðir úr því og innstreymið er greinilega ekki að minnka.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Eldgosið við Sund­hnúkagígaröðina hófst af krafti þann 16. mars og er sennilega það öflugasta á Reykjanesskaganum hingað til. Það dró hratt úr krafti gossins en síðustu daga hefur lítið breyst. Tveir gígar eru enn virkir á gossprungunni.

„Það bendir flest til þess að þetta sé búið að vera mjög svipað í töluverðan tíma og við sjáum engin merki um miklar breytingar. Þetta er ekki mikið hraunflæði, það eru um 5-10 rúmmetrar á sekúndu – svipað og í Fagradalsfjalli en mjög algengt í svona gosum sem vara í dálítinn tíma,“ segir Magnús Tumi.

Fundur almannavarna 11.11.23. Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði,
Fundur almannavarna 11.11.23. Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beint streymi í gegnum geymsluhólfið

„Og það virðist vera nokkurn veginn beint streymi í gegnum geymsluhólfið undir Svartsengi. Þannig að við virðumst vera í nokkuð stöðugum farsa og það er ómögulegt að segja hversu lengi þetta varir,“ segir Magnús Tumi.

Nú eru jarðvísindamenn aftur á móti farnir að sjá merki um landris að nýju.

„Landrissbreytingar hafa verið mjög litlar en síðustu tvo, þrjá dagana eru vísbendingar um að það sé hafið, þannig að innstreymið að neðan er greinilega ekki að minnka,“ segir hann. Það flæði sem sagt meiri kvika inn í hólfið heldur en flæðir úr því.

Þess vegna sjáist engin merki eru um að það fari brátt að sjást fyrir enda gossins. Magnús segir mögulegt er að eldgosið malli í nokkra mánuði eins og gerðist í Fagradalsfjalli.

„Við þurfum að vera við því búin að þetta vari í töluverðan tíma.“

Á bylgju­víxl­mynd sem sýnir af­lög­un frá 18. mars til 3. …
Á bylgju­víxl­mynd sem sýnir af­lög­un frá 18. mars til 3. apríl sést að land hafi risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili. Kort/Veðurstofa Íslands

Hraunið gæti leitað til norðurs eða út í sjó, en það tæki tíma

Þetta fjórða eldgos á Sundhnúkagígaröðinni á síðustu fjórum mánuðum hefur staðið allt að tífalt lengur en fyrirrennarar sínir, að sögn Magnúsar. „Samt er þetta ekki búið að standa í einn tíunda af því sem gosið í Fagradalsfjalli stóð,“ bætir hann við.

Hvað gerist ef þetta heldur mikið lengur áfram? Magnús varpar fram nokkrum sviðsmyndum.

Hraunið gæti t.d. hlaðist upp, færst í stöðugt rennsli meðfram varnargörðunum og gæti jafnvel endað úti í sjó. Önnur sviðsmynd er að það fari yfir varnargarðana. Þriðja sviðsmyndin væri sú að hraunið byggist mikið upp og leiti í norðurátt.

„Þannig að það er ekkert hægt að fullyrða um hversu langt hraunið fer ef þetta stendur í einher mánuði. En ef þetta er svipað og verið hefur mun öll framrás þess vera mjög hæg.“ bætir hann við.  „Svo gæti þetta hætt fljótlega.“

„Langhlaup að eiga við þetta“

Aðstreymi kviku undir Svartsengi á svæðinu þar um kring hefur verið stöðugt í ríflega fimm mánuði, frá því í lok október.

„Það má segja að þetta er atburðarrás sem er búin að vera í gangi í þrjú fjögur ár, samt ekki stöðugt. Þá er það bara spurning hversu lengi heldur þetta áfram svona. En það er ekkert ólíkleg sviðsmynd að þetta gosástand, með annað hvort löngu stöðugu gosi eða endurteknum smágosum, […] haldi áfram fram á sumar eða fram á haust. Það er engin leið að segja til um það,“ segir Magnús.

„En það er bara eitthvað sem við verðum að búa okkur undir. Það er langhlaup að eiga við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka