Hermann Nökkvi Gunnarsson Iðunn Andrésdóttir
Ný ríkisstjórn mun þurfa að koma sér saman um málefnasamning áður en ákveðið verður hver taki við embætti forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst tilbúinn að leiða næstu ríkisstjórn.
Er vitað hver tekur við sem forsætisráðherra?
„Nei, það þarf að mynda nýja stjórn til þess að koma á fót nýju ráðuneyti undir nýjum forsætisráðherra,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is að þingflokksfundi loknum.
Gera Sjálfstæðismenn tilkall til forsætisráðuneytisins?
„Það byrjar nú á því að við sjáum fram á að stjórnin sem eigi að starfa sé sú sem við viljum vera í og að við séum örugglega samstíga um öll áherslumálin.“
Hann segir það ekki launungamál að átök hafi verið innan ríkisstjórnarinnar um áherslur á ákveðnum tímum. Þess vegna sé það augljóst fyrir alla stjórnarflokkana að áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar snúist um trú á málefnasamningi.
Áherslur í þeim samningi þurfi að takast á við ástandið í þjóðfélaginu eins og það er í dag og það sem eftir lifir kjörtímabils. Bjarni segir verðbólgu of háa, orkuskort blasa við og að mikilvægt sé að ná tökum á hælisleitendamálum.
„Þegar þessu hefur verið svarað að þá getum við rætt það með að leiða. Að sjálfsögðu erum við tilbúin að leiða og ég tilbúinn til að leiða ríkisstjórn. Það hefur alltaf verið þannig,“ segir Bjarni.