Þegar frystir aðfaranótt sumardagsins fyrsta er oft talað um að vetur og sumar frjósi saman. Þetta er talið vita á gott sumar, samkvæmt gamalli þjóðtrú, og þessi fyrirboði betri tíðar gerði vart við sig víðsvegar um landið í nótt, aðallega á Norðurlandi.
„Það frysti hér og þar, helst á Norðurlandi vestra, víða í innsveitum á Suðurlandi og Norðurlandi,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Víðtækast var frostið á Norðurlandi vestan Eyjafjarðar
„Þegar það er bjart yfir og heiðskýrt fylgja kaldar nætur, sérstaklega í lægðum eins og í kringum Þingvallavatn og Mývatn,“ bætir Eiríkur við.
„Þetta er bara ósköp venjulegur vordagur í hæðarhrygg, þar sem er hægt og stillt veður,“ segir Eiríkur.
Næstu daga tekur þó aftur að kólna á landinu. Það bætir í úrkomu um landið norðaustan- og austanvert.
Spurður út í veðurfar á suðvesturhorninu næstu daga svarar Eiríkur: „Það er að snúast aðeins í norðlægar áttir. Það heldur kólnar umfram það sem hefur verið undanfarið, en bjart yfir. Dægursveiflan er þokkaleg, sólin hitar á daginn.“