Vilja binda milljónir tonna í jörðu við Straumsvík

Holutopphús Carbfix.
Holutopphús Carbfix. Ljósmynd/Carbfix

„Markmiðið er að binda árlega um þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í jörðu við Straumsvík, á varanlegan og öruggan hátt, í þágu baráttunnar gegn loftslagsvánni,“ segir Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix, um verkefnið Coda Terminal.

Að sögn Ólafs er Coda Terminal móttöku- og geymslustöð fyrir koltvísýring sem Carbfix flytur til landsins frá evrópskum iðnaði, meðal annars frá sementsverksmiðjum og öðrum geirum sem eiga erfitt með losun.

„Koltvísýringur verður fluttur til landsins á fljótandi formi með sérhönnuðum skipum inn í Straumsvík. Þaðan verður hann fluttur í Coda Terminal og dælt í berggrunninn í Straumsvík til varanlegrar geymslu á allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi á ári,“ segir Ólafur.

„Magnað verkefni“

„Þetta er magnað verkefni, við erum þau einu í heiminum sem erum að steinrenna, önnur fyrirtæki eru að dæla í gamlar gas- og olíulindir og geyma það í steinloki,“ segir Ólafur um verkefnið.

„Þetta er sama aðferð og náttúran notar við að halda jafnvægi á koltvísýringi á jörðinni, í andrúmsloftinu, það magnaða við þetta er að þetta er náttúruleg aðferð,“ segir Ólafur.

„Okkur langar að vera fyrsta fyrirmyndin í heiminum að svona stöð, leiðarljós fyrir aðra og sýna að þetta er hægt. Með þessu erum við að sanna að það er hægt að gera þetta upp í milljón tonna skala,“ segir Ólafur.

Að sögn Ólafs er koltvísýringur varanlega bundinn, hann getur ekki streymt upp, hvorki þegar verið er að dæla niður né síðar.

„Við áætlum að þegar við erum að dæla niður þremur milljónum tonna á ári í 30 ár séum við kannski búin að fylla upp í 1% af því plássi sem er mögulegt undir svæðinu í Straumsvík,“ segir Ólafur. 

Jákvæð áhrif á loftslag

Að sögn Ólafs er mikil trú á að þetta raungerist, fyrirtækið fékk stærsta styrk sem Ísland hefur fengið frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til að stuðla að uppbygginguninni, um 115 milljónir evra. 

Áætlað er að hefja rekstur árið 2027 og gert er ráð fyrir að móttöku- og geymslustöðin verði fullbyggð árið 2032. Hún gæti þá tekið við og bundið um þrjár milljónir tonna af koltvísýringi á ári, en það samsvarar meira en helmingi af árlegri losun á beinni ábyrgð Íslands, að sögn Ólafs.

Áhrif Coda Terminal á umhverfið stuðla að verulega jákvæðum áhrifum á loftslag og óveruleg áhrifum á fjölda umhverfisþátta. Nokkur óvissa ríkir um áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn og verndarsvæði og náttúruminjar, samkvæmt umhverfismati Coda Terminal.

Bregðast má við því með mótvægisaðgerðum og að sögn Ólafs eru mótvægisaðgerðir Carbfix meðal annars að byggja upp Coda Terminal í skrefum með 18 mánaða millibili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert