Myndin farin að skýrast

Betur fór en á horfðist þegar rúta með 26 farþegum …
Betur fór en á horfðist þegar rúta með 26 farþegum auk bílstjóra valt í Rangárvallasýslu á laugardaginn, 25. maí. Ljósmynd/Jónas Yngvi Ásgrímsson

Myndin er farin að skýrast varðandi atvik mála þegar rúta, með 27 manns um borð, valt á Suður­landi um síðustu helgi að sögn lögreglu. Rútan virðist hafa sokkið ofan í vegöxlina sem gaf síðan eftir.

Rúta með 26 farþegum auk bílstjóra valt heilan hring af Rangárvallavegi um kl. 17 laugardaginn 25. maí. Sjö voru fluttir slasaðir með þyrlu til Reykjavíkur en hinir á sjúkrahús á Hellu og Selfossi.

Rannsókn stendur enn enn yfir, segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

„Það hefur gengið vel,“ segir Jón inntur eftir því hvernig rannsókn slyssins hefur undið fram. „Það er búið að ræða við eitthvað af fólki en það er ekkert nýtt sem ég get komið inn á.“

Vegöxlin hafi gefið eftir

Enn á eftir að taka skýrslu af nokkrum sem voru um borð í rútunni. Jón segir að búið sé að ræða við bílstjórann en kveðst ekki handviss hvort lögregla hafi tekið af honum skýrslu. Bílstjórinn var þó tekinn í blóðprufu, eins og siður er fyrir þegar slys af þessu tagi gerast.

Er komin einhver skýrari mynd af því sem gerist þarna?

„Já, já, hún er að skýrast alltaf, en eins og ég segi á eftir að bera saman öll gögn og ljúka því. Það er engin niðurstaða komin,“ svarar hann.

Vegöxlin er talin hafa gefið eftir.
Vegöxlin er talin hafa gefið eftir. Ljósmynd/Jónas Yngvi Ásgrímsson

Eins og fram hefur komið eru ummerki á vegöxlinni sem gefa til kynna að vegurinn hafi gefið eftir, að sögn lögreglu.

„[Rútan] sekkur í vegöxlina og vegöxlin gefur eftir, þá eru ummerki um það á vettvangi að sögn rannsakara sem voru þar,“ segir yfirlögregluþjónninn.

„Það er bara hluti af því sem við erum að skoða í heildarsamhenginu,“ bætir hann við að lokum.

Starfs­menn Vega­gerðar­inn­ar telja aftur á móti ekki að veg­ur­inn hafi gefið sig und­an rút­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert