Bláa lónið opnar á morgun

Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/mbl.is/Óttar.

Farið hefur verið yfir öryggismál og metið sem svo að starfsemi Bláa lónsins megi opna á ný eftir að rýming fór fram þann 29. maí vegna eldsumbrota. Starfsemin mun opna á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Til þess að tryggja flóttaleiðir frá Bláa lóninu hafi lögreglan, HS Orka og Bláa lónið komið fyrir einbreiðum malarvegi frá Svartsengi sem tengist Nesvegi vestan Grindavíkur. Eins og mörgum er kunnugt rann hraun yfir Bláalónsveg og Nesveg. Malarvegurinn er ekki ætlaður almennri umferð.

Ítrekað er að ekki sé heimilt að ganga inn á gossvæðið frá bílastæði Bláa lónsins. Þeir sem hafi leyfi til þess að fara inn á svæðið séu viðbragðsaðilar, hópar vísindamanna og einstaklingar á vegum Blaðamannafélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert