Sprunga virðist hafa opnast við varnargarð

Eldgosið við Sundhnúkagígum á fimmtudaginn, 30. maí.
Eldgosið við Sundhnúkagígum á fimmtudaginn, 30. maí. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Vísindamenn á Veðurstofu Íslands tóku eftir því í gærmorgun að gufa væri farin að rísa upp við varnargarð við Grindavík. Talið er að sprunga hafi opnast þar en kvika hefur aftur á móti ekki enn skriðið þar upp.

Meginstraumar hraunsins eru þrír, einn í suðri og tveir í norðri. Hraunið frá syðsta gígnum rennur í suðvesturátt, eins og í síðasta gosi. Þá er einnig hraunrennsli norðarlega sem rennur í austurátt.

„Það er búið að vera lélegt skyggni í allan dag. En núna er búið að létta til og við sjáum betur hraunflæðið,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Gæti runnið úr hrauntjörn að Grindavíkurvegi

Þá hefur einnig myndast hrauntjörn við Sýlingarfell. „Það gæti alveg orðið einhver framrás þar til suðurs á næstu dögum,“ segir Einar. „En núna virðist þetta vera stöðugt hraunflæði og dálítil virkni áfram í gosinu.“

Mun hraun sem sagt ekki flæða yfir vegi?

„Það mun ekki gerast í nótt, en það þarf að fylgjast vel með hraunstraumum við Sýlingarfell. Það gæti með tíð og tíma náð að bunkast upp og farið norður fyrir Sýlingarfellið og þar í átt að Grindavíkurvegi. En það stendur til að fylgjast betur með því og setja upp aðra vefmyndavél þar á vegum almannavarna.“

Gufa rís við varnargarð

Í morgun sást gufuský rísa við varnargarð, að sögn Einars.

„Það er eins og það sé einhver lítil opnun þarna en engin kvika hefur komið upp. Bara gufa,“ segir hann.

„Það er eins og það opnist sprunga við norðanverðan varnargarðinn,“ segir Einar enn fremur og bætir við að Veðurstofan haldi áfram að fylgjast með gufunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert