Bolvíkingurinn Einar Draupnir Hálfdánsson slær ekki slöku við í líkamsræktinni og tók 110 kg í réttstöðulyftu á dögunum en lætur sér fátt um finnast.
„Baldur Arnarson, þjálfari minn, segir að þetta sé mjög gott hjá 78 ára gömlum manni, en ég veit það ekki, aðalatriðið er að æfa vel og reglulega og halda sér í góðu formi,“ segir hann.
Hálfdán Örnólfsson, faðir Einars, gerði út trillu og sonurinn stóð varla út úr hnefa þegar hann byrjaði að aðstoða hann við beitningar og fleira en hann var í um 60 ár til sjós frá 16 ára aldri.
„Ég byrjaði ungur að fara til veiða með pabba á trillunni enda var ekkert annað í boði en sjómennska í Bolungarvík.“ Hann fór í Stýrimannaskólann eftir að hafa verið lengi á trillum og stórum bátum frá Bolungarvík og var stýrimaður og skipstjóri í um 42 ár eftir það. „Ég var lengst af á Sveini Jónssyni frá Sandgerði.“
Einar stundaði hvorki íþróttir né aðra skipulagða líkamsrækt í æsku. „Ég hafði engan tíma til þess,“ segir hann. Vinnan hafi haft forgang og líkamsræktin ekki orðið að daglegum lífsmáta fyrr en hann varð fertugur. Hún hafi ekki komið til af góðu. „Það fór ekki vel með mig að vera alltaf uppi í brú og hreyfa mig lítið,“ bendir hann á. Hann hneig niður í rúllustiga meðan á stoppi stóð í Þýskalandi, fór til læknis eftir heimkomuna og hann setti honum úrslitakosti.
Sjá meira um málið í Morgunblaðinu í dag.