Alltaf gott veður á Húsavík

„Sem betur fer dregur annað slagið fyrir sólina til að …
„Sem betur fer dregur annað slagið fyrir sólina til að kæla sig,“ skrifaði Hjálmar Bogi við myndina sem hann birti af sér í gær. Ljósmynd/Aðsend

Húsvíkingur skellti sér í sólbað út á svölum þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Hann segir fréttir af veðrinu aftur á móti ekki ýktar. Það sé samt alltaf gott veður á Húsavík.

Hjálmar Bogi Hafliðason er deildarstjóri í Borgarholtsskóla á Húsavík og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi. Í gær birti hann mynd af sér á Facebook-síðu sinni þar sem hann sat úti á svölum heima hjá sér í sólbaði

Yfirleitt væri þetta ekki frásögu færandi en síðasta sólarhringinn hefur appelsínugul viðvörun frá Veðurstofunni ríkt á Húsavík.

Við myndina skrifar Hjálmar: „Það er alltaf gott veður á Húsavík. Sem betur fer dregur annað slagið fyrir sólina til að kæla sig.“

Fréttir af veðrinu ekki ýktar

Aðspurður hvort fréttir af óveðri fyrir norðan séu ýktar segir Hjálmar svo ekki vera: „Heyrðu, þær eru ekki ýktar. Ég skal gangast við því.“

Jafnframt segir hann það þó ekki ýkjur að veðrið sé yfirleitt gott á Húsavík en sú var einmitt kveikjan að myndinni. 

„Í tölvupóstum segi ég mjög oft eitthvað eins og „kveðjur úr kvöldsólinni á Húsavík“ eða „góða veðrinu á húsavík“. Kollegi minn sem er skólastjóri á Akranesi er orðinn leiður á að fá þessa pósta frá mér og sendi mér þess vegna skilaboð í gær og spurði hvernig veðrið væri núna á Húsavík í ljósi þess að það var eins og það var,“ segir Hjálmar.

„Þess vegna birti ég þetta, fór út á svalir, klæddi mig upp á og henti í þessa mynd,“ segir Hjálmar en bætir við að veðrið hafi vissulega verið ágætt þegar myndin var tekin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert