Dúx fer á Evrópsku Ólympíuleikana í eðlisfræði

Katrín Hekla Magnúsdóttir dúx tekur í höndina á skólameistara Kvennaskólans …
Katrín Hekla Magnúsdóttir dúx tekur í höndina á skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Dúx Kvennaskólans í Reykjavík er Katrín Hekla Magnúsdóttir en hún kláraði skólann með ágætiseinkunnina 9,82 og hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og eðlisfræði.

Í sumar ferðast Katrín til Georgíu þar sem hún tekur þátt í Evrópsku Ólympíuleikunum í eðlisfræði. Undirbúningurinn fyrir mótið byrjar á næstu dögum og er greiddur af Kópavogsbæ. „Þetta er sumarvinnan mín,“ segir Katrín.

Hún hefur skráð sig í háskólanám í verklegri eðlisfræði hjá Háskóla Íslands og er spennt að byrja þar næsta haust.

Katrín spilar einnig handbolta með HK.
Katrín spilar einnig handbolta með HK. Ljósmynd/Aðsend

Núlstillir sig í göngutúr

Katrín hefur í nógu að snúast en hún spilar einnig handbolta með HK og vinnur að því að klára framhaldspróf á píanó hjá Tónlistarskóla Kópavogs.

Þegar prófatíðin stendur sem hæst finnst Katrínu gott að fara í göngutúra og á æfingar eftir nokkra klukkutíma af lærdómi. Þannig gleymir hún öllu í smá stund, að eigin sögn.

Aðspurð segir Katrín fyrst og fremst skipulag útskýra þennan góða árangur. Hún hefur ávallt verið með nokkra bolta á lofti og hefur því lært að skipuleggja sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert