Einn gígur virkur

„Það er eitthvað að draga úr þessu og eiginlega bara …
„Það er eitthvað að draga úr þessu og eiginlega bara einn gígur virkur núna,“ segir Benedikt Gunnar. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, segir yfirstandandi eldgos vera farið að svipa svolítið til þess hvernig síðasta gos þróaðist.

Það komi í ljós á næstu viku eða tveimur hvort sú þróun haldi áfram eða þróist eitthvað frekar. 

„Það er eitthvað að draga úr þessu og eiginlega bara einn gígur virkur núna,“ svarar Benedikt Gunnar spurður um stöðuna á eldgosinu. Hann segir þó ekki hægt að gefa út nákvæmar tölur um hraunflæði alveg strax vegna veðurs. 

Gæti haldið áfram heillengi 

„Við höfum ekki gott mat á flæðinu akkúrat eins og það er og í raun eru ekki líkur á að við fáum það fyrr en eftir að veður gengur niður,“ segir Benedikt og útskýrir að til þess að meta hraunflæði þurfi að fljúga yfir svæðið svo hægt sé að meta rúmmálsbreytingar á hrauninu. 

Benedikt Gunnar segir ekki endilega útlit fyrir að gosið sé að klárast, en þangað til í gær voru mjög skýr merki um sig í Svartsengi. Hann segir eitthvað að hægja á siginu núna en á sama tíma of snemmt að segja til um hvort landris sé hafið á ný.  

„Það eru einhverjar breytingar í þessu þenslumerki, en það kemur í ljós á næstu dögum hvernig það þróast. Það er langlíklegast að það þróist þannig að það verði aftur landris eða að það verði aftur stöðugt, en það kemur bara í ljós,“ segir Benedikt Gunnar og bætir við: 

„Jafnvel þó það byrji smá landris þá getur það alveg haldið áfram heillengi eins og síðast. Þannig að það er voða erfitt að segja hvað það þýðir en við sjáum allavega merki um að kvikuflæðið að neðan sé enn þá mjög svipað. Sem sagt að fæða Svartsengissvæðið eins og í síðasta gosi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert