Hlaut hæstu einkunnina fyrir lokaverkefni og dúxaði

Frá athöfninni síðasta föstudag.
Frá athöfninni síðasta föstudag. Ljósmynd/Landbúnaðarháskóli Íslands

Alls voru 72 nemendur brautskráðir frá Landbúnaðarháskóla Íslands á föstudaginn og hlutu 13 þeirra verðlaun fyrir góðan árangur í námi.

31 nemandi brautskráðist af háskólabrautum, 17 úr meistaranámi og 24 úr starfsmenntanámi.

Tabea Elisabeth Schneider var sú sem hlaut hæstu einkunn á B.S. prófi en hún lagði stund á landslagsarkitektúr og útskrifaðist með meðaleinkunnina 8,97.

Hún hlaut einnig hæstu einkunnina fyrir BS lokaverkefnið sitt en Magnús Guðbergur Jónsson Núpan var henni jafn og fengu þau bæði einkunnina 9,7. Hann lagði einnig stund á landslagsarkitektúr.

Við brautskráningu hlaut Sunna Skeggjadóttir styrk frá Blikastaðasjóði að upphæð 500.000 kr. til meistaraverkefnis á sviði jarðræktar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Magnús Guðbergur Jónsson Núpan og Tabea Elisabeth Schneider hlutu bæði …
Magnús Guðbergur Jónsson Núpan og Tabea Elisabeth Schneider hlutu bæði 9,7 fyrir B.S. lokaverkefnið sitt. Ljósmynd/Landbúnaðarháskóli Íslands

Brautskráning af háskólabrautum

Landbúnaðarháskólinn brautskráði nemendur af fimm brautum til BS náms. Brautirnar eru búvísindi, hestafræði, landslagsarkitektúr, náttúru- og umhverfisfræði og skógfræði. 

Ellefu nemendur brautskráðust úr landslagsarkitektúr, tíu úr búvísindum, átta úr náttúru- og umhverfisfræði og einn úr skógfræði.

Eydís Ósk Jóhannesdóttur og Marta Stefánsdóttir hlutu verðlaun fyrir góðan árangur á B.S. prófi af búvísindabraut en Bændasamtök Íslands veittu verðlaunin.

Steindóra Ólöf Haraldsdóttir brautskráðist af hestafræðibraut og hlaut verðlaun frá Kaupfélagi Borgfirðinga.

Anna Björg Sigfúsdóttir hlaut verðlaun gefin af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi fyrir góðan árangur á B.S. prófi í náttúru- og umhverfisfræði.

Narfi Hjartarson hlaut verðlaun gefin af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi fyrir góðan árangur á B.S. prófi í skógfræði.

Tabea Elisabeth Schneider útskrifaðist með 8,97.
Tabea Elisabeth Schneider útskrifaðist með 8,97. Ljósmynd/Landbúnaðarháskóli Íslands

Fjórir verðlaunaðir

Sautján nemendur voru brautskráðir úr framhaldsnámi, þar af hlutu fjórir verðlaun fyrir frábæran árangur í námi.

Fyrir góðan árangur á meistaraprófi í skipulagsfræðum hlutu Díana Berglind Valbergsdóttir og Valdís Vilmarsdóttir verðlaun gefin af Skipulagsfræðingafélagi Íslands.

Fyrir frábæran árangur á meistaraprófi í umhverfisbreytingum á norðurslóðum hlaut Franklin Harris verðlaun gefin af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fyrir frábæran árangur á meistaraprófi í rannsóknamiðuðu meistaranámi hlaut Kári Freyr Lefever verðlaun gefin af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Lára hæst á búfræðiprófi

22 nýir búfræðingar og tveir garðyrkjufræðingar voru brautskráðir úr starfsmenntanámi. Helgi Eyleifur Þorvaldsson námsbrautarstjóri brautskráði sína nemendur og veitti verðlaun fyrir góðan árangur.

Fyrir hæstu einkunn á búfræðiprófi hlaut Lára Guðnadóttir verðlaun gefin af Bændasamtökum Íslands. Jafnframt hlaut Lára verðlaun frá Búnaðarsamtökum Vesturlands fyrir frábæran árangur í hagfræðigreinum

Fyrir frábæran árangur í búfjárræktargreinum hlaut Sunna Lind Sigurjónsdóttir verðlaun gefin af RML.

Fyrir frábæran árangur í bútæknigreinum hlaut Vésteinn Valgarðsson verðlaun gefin af Líflandi.

Verðlaun fyrir frábæran árangur í námsdvöl hlaut Sunna Lind Sigurjónsdóttir, gefin af Minningarsjóði Hjartar Snorrasonar og Ragnheiðar Torfadóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert