Hræðast stafrænar lausnir

Hluti verkefnis Magdalenu var að spreita sig sjálf í stafrænni …
Hluti verkefnis Magdalenu var að spreita sig sjálf í stafrænni nýsköpun og stofnaði hún lausnarmótið Hacking Hekla. Ljósmynd/Aðsend

Það vantar opið samtal milli stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu til að stuðla að stafrænni nýsköpun. Þetta segir Magdalena Falter doktor í ferðamálafræði.

Magdalena sem er frá Bæjarlandi í Suður-Þýskalandi varði á dögunum doktorsritgerð sína í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands en í henni fjallaði hún um sóknarfæri stafrænnar nýsköpunar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Í rannsókninni sem Magdalena hefur unnið að frá 2019 beindi hún sérstaklega sjónum að svokölluðum lífstílsfrumkvöðlum en það er fólk í ferðaþjónustu sem rekur fyrirtæki ekki fyrst og fremst til að græða peninga heldur horfir til þess að reksturinn býður upp á ákveðinn lífstíl sem það heillast af. Til dæmis getur verið heillandi að búa í sveit, eyða tíma með fjölskyldu eða reka gamalt fjölskyldufyrirtæki.

Magdalena segir að lítill skilningur ríki almennt fyrir því hvernig slík fyrirtæki geti stuðlað að sjálfbærri framþróun í ferðaþjónustu.

Afhverju Ísland?

Aðspurð afhverju hún ákvað að koma til Íslands til að stunda rannsókn sína segir Magdalena að hún hafi starfað við hestamennsku á Íslandi á sumrin á meðan hún var í háskólanámi í Þýskalandi.

„Mér fannst Ísland svo áhugavert og vildi koma til baka.”

Magdalena varði nýverið doktorsritgerð í ferðamálafræði.
Magdalena varði nýverið doktorsritgerð í ferðamálafræði. Ljósmynd/Aðsend

Til að útskýra frekar af hverju Ísland sé tilvalið fyrir rannsóknina segir Magdalena: „þegar ég vann í hestamennsku á Íslandi fannst mér fólk í sveitinni svo flinkt og hér eru margir frumkvöðlar þótt þeir myndu aldrei kalla sig það sjálfir. Það er mikil hræðsla við það. Með doktorsverkefninu mínu vildi ég rannsaka af hverju þetta fólk tengir ekki við umræðuna sem er í gangi um framþróun og frumkvöðlastarf og vinna að tillögum til að breyta því, til að byggja brú milli sveitar og borgar. ”

Lansbyggðin ekki álitin aðlaðandi

Magdalenda er úr sveit í Þýskalandi en hún segir að bæði þar og á Íslandi ríki ranghugmyndir um landsbyggðina: „Landsbyggðin er ekki álitin jafn aðlaðandi og borgin fyrir skapandi fólk, fyrir frumkvöðla, fyrir nýsköpun. Fólk heldur að það þurfi að búa í borg til að gera eitthvað skapandi en það er bara ekki rétt.”

Í doktorverkefni sínu skoðaði Magdalena einmitt hlutverk nýsköpunar í mótun ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

„Ég vildi finna út hvaða hlutverki nýsköpun, þá sérstaklega stafræn nýsköpun, gegnir í endurhugsun á ferðaþjónustu til að auka sjálfbærni” segir Magdalena og bætir við að það að gera ferðaþjónustu sjálfbærari sé ein helsta áskorunin sem blasir við greininni.

Fólk hrætt við stafræna nýsköpun

Við vinnslu verkefnisins ferðaðist Magdalena um landið og ræddi við yfir 30 lífstílsfrumkvöðla um viðhorf þeirra til stafrænnar nýsköpunnar.

Magdalena ferðaðist um landið og ræddi við svokallaða lífstílsfrumkvöðla.
Magdalena ferðaðist um landið og ræddi við svokallaða lífstílsfrumkvöðla. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir stafræna nýsköpun aðallega notaða í markaðsetningu hjá minni ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni en aðstandendur þeirra séu almennt ekki spenntir fyrir að innleiða tækni í fleiri kima starfseminnar.

„Stafræn nýsköpun er svo stórt hugtak að erfitt er að ná utan um það. Ég hugsa að þess vegna séu margir lífstílsfrumkvöðlar á móti stafrænni nýsköpun því þeir halda að tæknin sé að koma í staðinn fyrir fólk.”

Magdalena segir að það sé hins vegar ekki raunin. Það að nota stafrænar lausnir, til dæmis í miðasölu, geti losað um starfsfólk og gert því kleift að eyða meiri tíma í að ræða við ferðamenn.

Skortur á samtali

Til að vinna bug á þessum misskilning og efla stafræna nýsköpun í ferðaþjónustu talar Magdalena um að efla þurfi opið samtal milli ferðamálayfirvalda og lífstílsfrumkvöðla en hún segir að ákveðin gjá sé milli þessara aðila.

„Fræðafólki og stjórnvöldum finnst hugtök á borð við stafræn nýsköpun spennandi á sama tíma og sumum lífstílsfrumkvöðlum finnst þau óskiljanleg og vilja þess vegna ekki kynna sér þau.”

Magdalena Falter og Svava Björk Ólafsdóttir stofnendur Hacking Hekla.
Magdalena Falter og Svava Björk Ólafsdóttir stofnendur Hacking Hekla. Ljósmynd/Aðsend

Hlaðvarp á leiðinni

Sjálf þekkir Magdalena hvernig hægt sé að nýta tækni til framþróunnar í ferðaþjónustu.

Hluti af doktorsverkefni hennar var að setja á laggirnar svokallað hakkaþon sem bar titilinn Hacking Hekla og miðaði að því að hvetja til nýsköpunar í ferðaþjónustu um allt land.

Um þessar mundir vinnur Magdalena ásamt Gunnari Þór Jóhannessyni og Magnúsi Hauki Ásgeirssyni að hlaðvarpinu Ferðamál á Íslandi en markmiðið með því er að gera rannsóknir í ferðamálafræði aðgengilegar almenningi. Upptökur eru í gangi um þessar mundir en Magdalena segir að fyrstu þættirnir komi út í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert